Selma Guðmundsdóttir píanóleikari og aðjúnkt í tónlistardeild er á leið í 2ja vikna  tónleikarferð til Kína með tónlistarhópnum Trio Aurora en hann skipa auk Selmu þau Sigrún Eðvaldsdóttir fiðluleikari og konsertmeistari og Ögmundur Jóhannesson gítarleikari.

Þær Sigrún og  Selma Guðmundsdóttir eiga langt samstarf að baki með tónleikahaldi hér heima og erlendis auk þessa að gefa út geisladiska saman.  Ögmundur Jóhannesson hefur  slegist í hóp með þeim, en þessi framúrskarandi, ungi gítarleikari hefur þegar skapað sér alþjóðlegan feril.

Í ferðinni frumflytja þau verk fyrir tríóið eftir Þóru Marteindsdóttur tónskáld, sem hún samdi sérstaklega fyrir þau. Auk fleiri tríóverka leika þau tvíleiksverk, gítar-fiðla, gítar-píanó og fiðla-píanó. Á efnisskrá eru m.a. verk eftir Atla Heimi Sveinsson, Árna Björnsson, N.Paganini, Mario Castelnuovo-Tedesco, L.v.Beethoven og A. Piazzola.

Fyrstu tónleikarnir voru á vegum Íslenska sendiráðsins í Peking 24. mars, en alls mun tríóið leika  á níu tónleikum í níu borgum, auk Peking eru tónleikar í Ningbo, Shaoxin, Zhuji, Jinhua, Maanshan, Wuhu, Fuling og Chonqquin.