Sunnudaginn 21.desember kl.16.00 , stendur Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari yrir tónleikum í tilefni þess að 40 ár eru síðan hún hóf kennslustörf. 

Tónleikarnir eru til þess að fagna þessum tímamótum. Á boðstólum eru verkefni líðandi stundar hjá nemendunum. Verkefnin eru af ýmsu tagi og frá ýmsum tímabilum, allt frá Barrokk til dagsins í dag, en m.a. verður frumflutt verk eftir 15 ára nemanda. Guðný mun taka þátt í flutningi með nemendum sínum í sumum verkanna. Tvær árstíðir koma við sögu: Vorið eftir Piazzolla og Haustið eftir Vivaldi.

Hápunktur tónleikanna verður síðan flutningur á hinni stórbrotnu Ciaconnu fyrir einleiksfiðlu eftir Johann Sebastian Bach. Fyrrverandi nemandi Guðnýjar, Bjarni Frímann Bjarnason hefur útsett verkið fyrir fiðluhóp ásamt víólum í tilefni dagsins.

Stór hópur fyrrverandi nemenda mun taka þátt í flutningnum, margir af þekktustu og virtustu fiðluleikurum Íslands.