Að þessu sinni fengu þrír ungir tónlistarmenn úthlutað úr sjóðnum. Þau Elín Arnardóttir píanóleikari og Þorkell Helgi Sigfússon söngvari sem útskrifuðust frá tónlistardeild Listaháskóla Íslands síðastliðið vor og Sigrún Björk Sævarsdóttir, söngkona en Sigrún lauk 6. stigi í píanóleik og fyrri hluta burtfararprófs við Söngskólann í Reykjavík í vor. Fær hvert þeirra 400.000 kr. í styrk úr sjóðnum.

Nánari upplýsingar um Elínu Arnardóttur

Elín Arnardóttir er fædd árið 1992. Hún hóf píanónám 3 ára gömul við Suzuki Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Hönnu Valdísi Guðmundsdóttir. Þaðan lá leiðin í Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hún stundaði nám undir handleiðslu Peter Máté. Elín lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík.
Elín hlaut inngöngu við diplóma braut Listaháskóla Íslands 16 ára gömul og ásamt því stundaði hún nám við Menntaskólann í Hamrahlíð. Að stúdentsprófi loknu hélt hún áfram námi við Listaháskóla Íslands þar sem Peter Máté var áfram aðalkennari hennar og útskrifaðist með Bmus gráðu frá LHÍ júní síðastliðnum.
Elín hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna þar sem hún flutti píanókonsert eftir Mozart. Í janúar 2012 kom Elín fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu, þar sem hún flutti píanókonsert nr. 2 eftir C. Saint- Saëns en hún sigraði, ásamt þremur öðrum tónlistarnemendum, í  einleikara keppni SÍ og LHÍ. Sama ár fór hún í skiptinám til Þýskalands þar sem hún stundaði nám í Hannover.
Elín hefur tekið virkan þátt í píanókeppni EPTA á Íslandi, og hlaut fyrstu verðlaun í flokki framhaldsnáms (2006), og önnur verðlaun í flokki háskólanáms (2012). Hún hefur sótt námskeið erlendis, í Bandaríkjunum og nú í sumar sótti hún námskeið á Ítalíu. Hún hefur nú fengið inngöngu við Brandon University í Kanada þar sem hún hefur Mastersnám í píanóleik í haust. 

Nánari upplýsingar um Þorkel Helga Sigfússon

Þorkell er fæddur árið 1988. Hann byrjaði að syngja í kirkjukór tveggja ára gamall og lærði á fiðlu frá 5 til 8 ára aldurs. Skipti þá yfir á selló sem hann lagði stund á næstu 10 árin, fyrst í Tónmenntaskóla Reykjavíkur undir handleiðslu Bryndísar Björgvinsdóttur og síðar í Tónlistarskóla Kópavogs undir handleiðslu Stefáns Arnar Stefánssonar og Sigurðar Bjarka Gunnarssonar. Þorkell hefur sungið með fjölda sönghópa, þ.á.m. eru Skólakór Kársnes, Hamrahlíðarkórinn, Hljómeyki og Schola Cantorum. Hann var meðlimur í Söngkvartettinum Vallargerðisbræður og gaf út hljómplötu með þeim. Þorkell syngur og spilar á gítar í tveimur hljómsveitum, Friends 4 Ever og Sing for me Sandra og hefur gefið út geisladisk með síðar nefndu hljómsveitinni. Tvítugur að aldri hóf Þorkell söngnám hjá Elísabetu Erlingsdóttur. Hann hefur sótt fjölda masterclassa og einkatíma, m.a. hjá Kristni Sigmundssyni, Mark Wildman, Chris Underwood, Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Elsu Waage. Þorkell útskrifaðist með B.mus gráðu í söng frá Listaháskólanum síðastliðið vor og stefnir á meistaranám í söng. Hann sækir nú einkatíma til að undirbúa sig fyrir inntökupróf í erlendum tónlistarháskólum.

Nánari upplýsingar um Sigrúnu Björk Sævarsdóttur

Sigrún Björk Sævarsdóttir sópran er fædd í Danmörku árið1990.  Hún söng í barnakór, hóf píanónám 6 ára, þverflautunám 9 ára og 14 ára gömul hóf hún söngnám í Tónlistarskóla Stykkishólms hjá Hólmfríði Friðjónsdóttur og lauk þaðan miðprófi í einsöng. Einnig lauk hún frá sama skóla 4 stigi í þverflautuleik og miðprófi í píanóleik. Eftir að Sigrún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga 2008 fluttist hún suður og hóf nám í Söngskólanum í Reykjavík 2009. Aðalkennarar hennar við skólann eru Ólöf Kolbrún Harðardóttir og Kristinn Örn Kristinsson. Samhliða náminu í Söngskólanum stundaði hún nám í verkfræði í HR. Hún tók sér leyfi frá Söngskólanum árið 2011 þegar hún hélt til Danmerkur í skiptinám í verkfræðinni. Hún lauk BSc gráðu í Heilbrigðisverkfræði vorið 2012.  Sigrún hlaut styrk úr Nýsköpunarsjóð námsmanna Rannís 2012 til að vinna verkefnið: Notkun þrívíddarmódela og staðsetningartækja við undirbúning skurðaðgerða á höfð en. verkefnið var eitt af fimm verkefnum sem voru valin öndvegisverkefni sjóðsins og tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Einnig hlaut Sigrún tilnefningu til verðlauna Framúrskarandi ungra Íslendinga 2013 frá JCI samtökunum á Íslandi. Sigrún hóf nám að nýju við Söngskólann í Reykjavík haustið 2012 en samhliða námi syngur hún í Óperukór Reykjavíkur undir stjórn Garðars Cortes. Sigrún lauk 6. stigi í píanóleik og fyrri hluta burtfararprófs við Söngskólann í Reykjavík í vor og í tilefni af því hélt hún einsöngstónleika með Kristni Erni Kristinssyni. Í vor stóðst hún inntökupróf við Tónlistarháskólann í Leipzig þar sem hún mun hefja Mastersnám haust.

Um styrkarsjóð Halldórs Hansen

Halldór Hansen, barnalæknir ánafnaði Listaháskóla Íslands veglegt tónlistarsafn sitt og arfleiddi skólann að eigum sínum þegar hann lést árið 2003. Meginmarkmið sjóðsins er að styrkja uppbyggingu og styðja við tónlistarsafn skólans. Auk þess veitir sjóðurinn árlega styrki til tónlistarnema sem hafa, að mati sjóðstjórnar, náð framúrskarandi árangri á sínu sviði. Styrktarsjóður Halldórs Hansen var formlega stofnaður 2004 og er þetta í níunda sinn sem veitt eru verðlaun úr sjóðnum. Það er stjórn sjóðsins sem velur verðlaunahafa ár hvert. 

Það er hægt að lesa nánar um Halldór Hansen