Supremacy of Peace á ISCM í Slóveníu

Verk Páls Ragnars Pálssonar, Supremacy of Peace, fyrir strengjasveit hefur verið valið fyrir hönd Eistlands á ISCM tónlistarhátíðina sem fram fer í Slóveníu í september 2015.

Verkið var á sínum tíma pantað af tónskáldafélagi Eistlands fyrir tónlistarhátíð þeirra, Estonian Music Days, árið 2013. Verkið var frumflutt á hátíðinni af Kammersveit Tallinn undir stjórn Risto Joost, eins þekktasta stjórnanda Evrópu af yngri kynslóðinni. Verkið hlaut góðar viðtökur áhorfenda og vakti ekki síst athygli fyrir þær vísanir sem Páll byggði verk sitt á. En þar endurspeglaði hann upplifun sína af ferðalögum um N–Austurhluta Eistlands þar sem ægir saman bjagaðri náttúru landsins, sem hefur látið stórlega á sjá eftir Sovéttímann, í bland við tímaleysi Rússnesku rétttrúnaðarkirkjnnar.

Eistneska ríkisútvarpið tók verkið upp og sendi á alþjóðlega tónskáldaþingið í Prag (International Rostrum of Composers) sama ár. Tónskáldafélag Eistlands sendi verkið svo inn í forval ISCM hátíðarinnar og var, sem áður sagði, valið til þáttöku í hátíðinni.

Strengjasveitin SKARK flutti verkið á eftirminnilegum tónleikum sínum í bílakjallara Hörpu sumarið 2013 undir stjórn Bjarna Frímanns.

Eftir að hafa leikið með hljómsveitinni Maus um árabil hóf Páll tónsmíðanám við Listaháskóla Íslands árið 2004. Eftir að útskrifast þaðan þrem árum síðar flutti Páll til Tallinn þar sem hann lauk MA gráðu við Eistnesku tónlistarakademíuna árið 2009 og  doktorsgráðu frá sama skóla í upphafi árs 2014. Kennari hans í Tallinn var Helena Tulve. 

Árið 2013 var Nostalgia fyrir fiðlu og hljómsveit frumflutt af Unu Sveinbjarnardóttir og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Stjórnandi var Ilan Volkov. Verkið var valið tónverk ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum sama ár.