STEFNUMÓT HÖNNUÐA OG BÆNDA er nýsköpunarverkefni Listaháskóla Íslands þar sem tveim starfsstéttum er teflt saman með það að markmiði að að þróa matarafurðir í hæsta gæðaflokki þar sem hönnun og rekjanleiki eru höfð að leiðarljósi. Nýnæmi verkefnisins felst í því að tefla saman einni elstu starfsstétt landsins, bændum, og einni yngstu starfsstétt landsins, vöruhönnuðum. Matís er samstarfsaðili Listaháskólans í verkefninu.

Stefnumót hönnuða og bænda stóð yfir í fjögur ár, frá 2007 – 2011, og skiptist í tvo hluta; námskeið og rannsókn. Á þessum fjórum árum var námskeiðið kennt þrisvar sinnum sem hluti af BA námi í vöruhönnun. Í þeim hluta tóku 30 nemendur og 11 býli víðs vegar af landinu þátt.

Árið 2008 fékk verkefnið styrk úr Tækniþróunarsjóði og Framleiðnisjóði Landbúnaðarins til að hefja sérstakt rannsóknarverkefni Stefnumóts hönnuða og bænda. Rannsóknarverkefnið var þriggja mánaða ferli sem gerði verkefninu kleift að þróa til fulls hugmyndir sem urðu til í námskeiðinu.  Þær afurðir sem hafa verið þróaðar í rannsóknarverkefninu eru Rabarbarakaramella Rabarbíu frá Löngumýri á Skeiðum, Sláturtertan frá Möðrudal á Fjöllum, rúgbrauðsrúlluterta og snúðar fyrir veitingastaðinn á Hala í Suðursveit og Skyrkonfekt Rjómabússins á Erpsstöðum í Dölum. Stefnumót hönnuða og bænda var hugsað sem gjöf til bændasamfélagsins í þeirri von að verkefnið gæti verið fordæmisgefandi og skapað margföldunaráhrif út í samfélagið.

Spark design space er að Klapparstíg 33. Opið virka daga frá 10:00-18:00 og á  laugardögum er opið 12:00-18:00. Lokað á sunnudögum.