Frestur til að skila inn umsóknum rennur út mánudaginn 27. janúar, kl. 15:00.

Markmið sjóðsins að auðvelda kennurum Listaháskólans að sinna sérverkefnum í grein sinni og sækja námskeið eða endurmennta sig á sínu sérsviði. Sérverkefni kennara geta verið verkefni sem tengjast listsköpun, rannsóknum, tengslamyndun eða kynningu á listgrein viðkomandi.

Meðal efnisþátta sem sjóðurinn styrkir er þátttaka í námskeiðum, ráðstefnum og sýningum, miðlun og listflutningur á opinberum vettvangi, fyrirlestrahald utan skólans, kynnisferðir og kynningarstarf, og tengslamyndun. Í þessu felst að sjóðurinn veitir styrki vegna ferðakostnaðar, námskeiðsgjalda, ráðstefnugjalda, og styrki til sjálfstæðra verkefna kennara sem spretta af listsköpun þeirra og/eða fræðilegum störfum. Verkefnin skulu vera skýrt skilgreind og með afmarkandi tímasetningum.

Umsóknir skulu vera skilmerkilegar og nákvæmar. Taka skal fram í umsókn hver eru helstu markmið og umfang verkefnisins, greina skal frá helstu áherslum, og hvernig umsækjandinn sér fyrir sér að það geti stuðlað að faglegri þróun hans og eflingu í starfi.

Með umsókn skal fylgja yfirlit um áætlaðan kostnað við verkefnið, og tiltekið skal hvert er áætlað eigið framlag, mótframlög annarra og hversu hátt það hlutfall er sem umsækjandinn áætlar að styrkveiting sjóðsins standi undir.

Miðað er við verkefni sem fara fram á yfirstandandi önn. Umsækjendum ber að senda inn greinargerð um fyrri styrk ef við á, að öðrum kosti verður ný umsókn ekki tekin til greina.

Auglýst er tvisvar á ári úr sjóðnum, næst verður auglýst í september 2014.

Sjá nánar um reglur sjóðsins: http://lhi.is/skolinn/stjornsysla/log-og-reglur/

Umsóknum og greinargerðum skal skila í umslagi merktu „Starfsþróunarsjóður kennara, Ólöf G. Sigfúsdóttir, Þverholti 11, 105 Reykjavík“.