Þessa vikuna er gestakennari staddur í tónlistardeild á vegum NAIP meistaranámsins. Það er söngvarinn, leikarinn, leikstjórinn og listræni stjórnandinn Phillip Curtis, sem er kennari við Prins Claus tónlistarháskólann í Groningen í Hollandi og Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag. Phillip vinnur með hópi nemenda deildarinnar, bæði söngvurum og hljóðfæraleikurum, í ýmis konar rýmis-, sviðs-, performans- og samspilspilsæfingum sem þjálfa nemendur í að eiga skýrari og áhrifaríkari samskipti við áheyrendur sína. Hópurinn sem um er að ræða vinnur að flutningi á franskri barokkóperu, og er vinnustofunum með Phillip ætlað að kafa ofan í fjölbreytilegar aðferðir og nálganir við framsetningu á þess háttar verkum hvað varðar rýmisvitund og líkamstjáningu - og þá ekki síst að kanna samspil söngvara og hljóðfæraleikara þannig að það nái að mynda eina heild.

Á föstudag kl. 13 - 14.30 mun Phillip svo halda erindi í málstofu á ráðstefnu LHÍ í Þverholti, Hugarflugi.sem er opin fyrir alla sem hafa áhuga. Upplýsingar um efni málstofunnar má finna hér:

http://lhi.is/skolinn/rannsoknir/radstefnur/hugarflug_2014-copy/ 

Philip Curtis útskrifaðist frá Háskólanum í York og hefur unnið sem óperusöngvari, leikari, leikstjóri og leikskáld. Starfssvið hans hefur spannað allt frá óperu og söngleikjum til nútíma tónleikhússýninga. 

Meðal hljómsveitarstjóra sem hann hefur unnið með má nefna Steuart Bedford, Sir Charles Groves, Graeme Jenkins, Diego Masson og Sir Roger Norrington. Hann hefur leikið undir leikstjórn Neil Bartlett, Robert Carsen, Graham Devlin, Declan Donellan, Colin Graham og Sir Jonathan Miller meðal annarra.

Sem sérfræðingur í nútíma tónleikhúsi hefur hann unnið með tónskáldunum Luciano Berio, John Cage, Morton Feldman, Bernard Rands og Stephen Sondheim (við Royal National Theatre í London).

Á undanförnum árum hefur hann þróað ýmsar kennsluaðferðir og námskeið, m.a. við Prins Claus tónlistarháskólann í Groningen í Hollandi og Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag og hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu á því sviði. Aðferðir hans staðsetja tónlistarmanninn gjarnan bæði í leikhúsinu jafnt sem í samfélaginu, og má nefna í því sambandi námskeiðin "The Musician as Actor" og "Music and Dimentia" sem hann þróar og kennir sem hluta af NAIP meistaranáminu í Hollandi.

Hann er meðstofnandi og listrænn ráðgjafi CityProms Foundation (áður Music Theatre Group Amsterdam) og er einn stjórnenda CityProms Embrace, fræðslu-, samfélags- og velferðarsviði CityProms Festival í Leeuwarden í Fríslandi.