MA nemar og BA nemar úr Listhaháskóla Íslands og Landbúnaðarháskólanum ætla í sumar að setja upp og hafa umsjón með samfélagsreknum hverfisgarði í Laugardalnum.Verkefnið verður unnið í samstarfi við Reykjavíkurborg og verða ýmsar uppákomur sem tengjast sjálfbærni, eins og bændamarkaður og skiptimarkaður hluti af starfsemi garðsins. Hægt er að skoða verkefnið nánar og fylgjast með á facebooksíðu verkefnisins

Garðurinn er staðsettur í Laugardalnum hliðin á fjölskyldugarðinum. Ræktunarsvæði garðsins verður 200 m2 í upplyftum beðum og verður fyrsti sáningardagur í garðinum 14. júní. Þá geta íbúar mætt og hjálpað til við að setja mold í beð og sá en fræ verða á staðnum fyrir þá sem mæta. Einnig getur fólk lagt til í verkefnið forsáðar plöntur og fræ. Bændamarkaður Frú Laugu og Matarkista Reykjavíkur munu bjóða gestum upp á súpu.

Hugmyndin er að tengja hverfisgarðinn inn í aðra starfsemi í hverfinu, s.s. skólastarf, til þess að tryggja áframhaldandi sjálfbært rekstrarform og að þessi tilraunagarður öðlist þar með framhaldslíf í höndum hverfisbúa. Afrakstur sumarsins verður seldur á bændamarkaði og munu tekjur af honum fara í áframhaldandi uppvöxt garðsins. Verkefnið er tilraun til að búa til vettvang fyrir borgarbúa til að vinna saman að jákvæðum samfélagslegum breytingum. 

Annar sáningardagur verður auglýstur síðar í sumar.