Að þessu sinni nýtur LHÍ þess sérstaka tækifæris að keyra námskeiðið eftir hugmyndum Biophilia verkefnis Bjarkar Guðmundsdóttur, en auk þess er námskeiðið samstarf milli Listaháskóla Íslands, Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar.

Markmið námskeiðsins er að nemendur hittist á þverfaglegum grunni og vinni saman að lausn verkefna á skapandi hátt, víkki út hugmyndir með samtali um forvitnileg fyrirbæri og fái innsýn í snertiflöt lista og vísinda.  Að námskeiðinu koma fjölmargir starfandi listamenn og vísindamenn frá Háskóla Íslands. Verkefnið Biophilia skapar umgjörð um námskeiðið þar sem gengið er út frá ákveðnum þemum í tónlist Bjarkar þar sem hvert lag hverfist um eitt fyribæri úr heimi vísinda eða náttúru.  Námskeiðið er fyrsta tilraun til að nota Biophilia kennsluefnið á háskólastigi.

Nánar um Biophiliu kennsluverkefnið

Biophilia Bjarkar er metnaðarfullt og framsækið margmiðlunarverkefni sem samanstendur af lögum Bjarkar ásamt gagnvirku smáforriti, þróað í samstarfi við ýmsa vísindamenn, rithöfunda, uppfinningamenn, hljóðfærasmiði og forritara. Hugmyndir verkefnisins hverfast um alheimslögmál og þeim náttúrukröfum sem tengja saman tónlist, náttúru og tækni. Umheimurinn er skoðaður bæði í sinni stærstu mynd og minnstu frumeindum. Farið er vítt og breytt yfir undraheim vísinda- og náttúrufyrirbæra: kristalla, jarðreka, veirur, möndulhalla, eldingar og rafhleðslur, þyngdarkraft og aðdráttarafl, hulduefni, gang himintunglanna og erfðaefni DNA.
Orðið biophilia er samansett úr forngrísku orðunum bio sem þýðir líf og philia sem þýðir ástríða. Á einfaldan hátt má segja að verkefnið snúist um ást á lífinu eða ástríðu og brennandi áhuga fyrir heiminum sem við lifum í og erum partur af.

Kennsluverkefni Biophilia er miðað að börnum og unglingum og er samstarfsverkefni Bjarkar Guðmundsdóttur, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands.  Það er nú í fyrsta sinn notað sem kennsluefni fyrir listkennslu á háskólastigi.