Verðlaunin hlaut Úlfur fyrir þróun og smíði nýs hljóðfæris sem hann kallar OHM og þróaði síðastliðið sumar með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Leiðbeinandi hans var Hans Jóhannsson, fiðlusmiður. Listaháskólinn óskar Úlfi til hamingju með glæsilegan árangur og óskar honum velfarnaðar í áframhaldandi tónsköpun.

Hljóðfærið er 26 strengja rafstrokin harpa með snertitökkum en er að auki sjálfspilandi með hjálp tölvu. Við upphaf verkefnisins var lagt upp með að hanna og þróa nýja tegund hljóðfæris sem ætti erindi inn í heim raftónlistarinnar, en byggi engu að síður yfir akústískum eiginleikum hefðbundinna eldri hljóðfæra. Raftónlist án hátalara hefur ekki náð fótfestu í heimi hljóðgervla og tölvuforrita, en með hjálp smárra tölvukubba eða örflaga hefur samtalið milli hinna stafrænu og hliðrænu heima eflst til muna. Með hljóðfærinu er hefðbundnu samspili snertingar, viðbragðs og tóns á strengjahljóðfæri umturnað, en strengirnir, sem eru innan í hljóðfærinu, eru knúnir áfram með snertitökkum úr kopar á viðaryfirborði. Þrátt fyrir að vera rafknúið er hljóð hörpunnar einungis byggt á eigindum strengjanna sem staðsettir eru innan í henni. Náttúruleg endurómun 26 opinna strengja skapar því þann tónblæ sem er einkennandi fyrir hljóðfærið.

Hér má heyra í slaghörpu Úlfs:

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands eru veitt árlega þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefnis sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið áður. Verðlaunin voru fyrst veitt 1996 og eru því nú veitt í átjánda sinn.

Fimm verkefni voru tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands í ár. Hin verkefnin voru eftirfarandi:

  • Notkun þrívíddarmódels og staðsetningartækja við undirbúning skurðaðgerða á höfði, unnið af Sigrúnu Björgu Sævarsdóttur.
  • Prófun á nýjum hröðunarnema til að meta stökkkraft, unnið af Ásdísi Magnúsdóttur.
  • Reynslusögur kvenna á Akureyri frá seinni heimsstyrjöld, unnar af Önnu Kristínu Gunnarsdóttur.
  • Ströndin og skógurinn: Útivistarnotkun og sóknarfæri, unnið af Sindra Birgissyni.