Lista- og nýsköpunarsmiðjan Kúnstin að kunna - listin að læra er hluti af meistaraverkefninu Kynslóðabrúin: Hvað ungur nemur gamall temur, þá ungur temur gamall nemur.

Í verkefninu fjallar Magnús Gylfi um framkvæmd og úrvinnslu lista- og nýsköpunarsmiðjunnar Kúnstin að kunna - listin að læra sem nýlega lauk með sýningu í Barnaskólanum í Reykjavík. Tilgangur smiðjunnar var að brúa kynslóðabil og sameina ólíkar kynslóðir, annarsvegar börn á miðstigi í grunnskóla og hinsvegar þann hóp einstaklinga sem eru af þeirri kynslóð sem við köllum ömmur og afa. 

Á námskeiðinu var leitast við að sameina kynslóðir, hægja á ofsahraða samfélagsins og valdefla einstaklinginn með því að skapa aðstæður fyrir samtal og samvinnu þar sem undirtónninn er menntun til sjálfbærni með tilliti til umhverfis og náttúru en þó ekki síður með samfélagslegu og menningarlegu tilliti.