Þeir sem hljóta styrk þetta árið eru Arnar Freyr Guðmundsson BA í grafískri hönnun, Björn Halldór Helgason BA í tónsmíðum, Dóra Hrund Gísladóttir BA í myndlist, Finnur Karlsson BA í tónsmíðum, Gintare Maciulskyte BA í myndlist, Guðrún Theódóra Alfreðsdóttir BA í vöruhönnun, Olga Sonja Thorarensen BA í leiklist, Pétur Ármannsson BA í leiklist, Signý Þórhallsdóttir BA í fatahönnun og Sigríður M. Sigurjónsdóttir BA í fatahönnun.  

Listaháskólinn leggur áherslu á að styðja við bakið á nýútskrifuðum nemendum með því að opna fyrir þeim tækifæri til starfsþjálfunar erlendis í sinni grein. Að mati skólans er afar mikilvægt fyrir nemendur að kynnast atvinnuumhverfinu að loknu námi og læra á lögmálin og venjurnar sem þar gilda. Fyrir marga er starfsnámið vendipunktur sem ræður oft miklu um það hvort viðkomandi getur nýtt þekkingu sína og kunnáttu sem fullgildur atvinnumaður. Þá gefur starfsnám erlendis nemendum aukið sjálfstraust til að lifa og starfa í fjölmenningarlegu samfélagi, þeir læra að hugsa og tjá sig um starfsgrein sína á nýju tungumáli og ávinna sér um leið tengsl á alþjóða vettvangi.

Hér verður fjallað um fyrstu fjóra styrkþega ársins sem ýmist luku starfsþjálfun í sumar eða hófu stafsþjálfun nú á haustdögum.  Nánar verður fjallað um aðra styrkþega síðar í vetur.

Guðrún Theódóra Alfreðsdóttir lauk BA prófi í vöruhönnun vorið 2012.  Hún hlýtur liðlega 700 þúsund krónur í styrk til að starfa í þrettán vikur hjá Vitra Domaine des Boisbuchet í Frakklandi.  Á Boisbuchet búgarðinu sameinast ungir hönnuðir, arkitektar og áhugafólk um hönnun undir handleiðslu heimsþekktra hönnuða en Boisbuchet Vitra skipuleggur yfir þrjátíu námskeið á hverju sumri.  Guðrún Theódóra starfaði í sumar sem aðstoðarmaður framkvæmdastjóra Boisbuchet þar sem hún var tengiliður við hönnuði og sá um skipulagningu á námskeiðum.  Ljóst er að í starfinu felst dýrmætt tækifæri til tengslamyndunar en meðal hönnuða sem störfuðu hjá Boisbuchet í sumar voru Tomoko Azumi, Max Lamb og Jaime Hayon.

Signý Þórhallsdóttir útskrifaðist með BA í fatahönnun vorið 2011.  Hún hlýtur 730 þúsund krónur í styrk til að starfa í þrettán vikur hjá Eley Kishimoto í London.  Fyrirtækið er þekktast fyrir prenthönnun og hefur m.a. hannað munstur fyrir Hussein Chalayan og Alexander McQueen.  Árlega sýnir fyrirtækið fatalínu sína á tískuvikunni í London. Signý mun starfa í hönnunardeild Eley Kishimoto og aðstoða við að hanna sumarlínuna 2013. Meðal verkefna er almenn hönnunarvinna, teikning, sníðavinna og silkiþrykk.

Finnur Karlsson útskrifaðist með BA gráðu í tónsmíðum vorið 2012.  Hann hlýtur liðlega 850 þúsund krónur í styrk til að starfa í sextán vikur hjá Edition S tónverkamiðstöðinni í Kaupmannahöfn.  Finni bauðst tækifæri til að starfa hjá Edition S í kjölfar vinnu sinnar hjá Íslensku Tónverkamiðstöðinni.  Starfsþjálfunin snertir áhuga hans á sviði nótnaútgáfu en hjá Edition S mun hann annast varðveislu á stafrænu handritasafni.  Hann mun jafnframt starfa við að útbúa verk til útgáfu sem felur í sér prófarkalestur, leiðréttingar og tölvusetningar.

Gintare Maciulskyte lauk BA prófi í myndlist vorið 2012.  Hún hlýtur u.þ.b. 520 þúsund krónur í styrk til að starfa í 16 vikur hjá textíllistakonunni Egle Ganda Bogdaniene sem er vel þekkt í heimalandi sínu, Litháen.  Egle er sjálfstætt starfandi textíllistakona og gegnir ennfremur starfi aðstoðarrektors í Vilnius Art Academy í Litháen. Í verkefnum sínum mun Gintare kynnast nýjum leiðum í rannsóknar- og hugmyndavinnu og enfremur læra að tileinka sér nýja tækni á sviði textíllistar.  Þótt Gintare sé sjálf litháísk að uppruna gafst henni ekki tækifæri til að leggja stund á litháísku fyrr en hún fór í skiptinám frá LHÍ til Litháen haustið 2010.  Þar kynntist hún Egle og hugmyndin að frekari samvinnu þeirra tveggja varð til.

Frekari upplýsingar um mannaskiptaverkefni Listaháskólans er að finna á vef skólans:

Nánari upplýsingar um mannaskiptastyrki Leonardo Starfsmenntaáætlun Evrópusambandsins:

Meðfylgjandi mynd var tekin á Boisbuchet búgarðinum í sumar.