Í dag eru þrjár brautir starfræktar við deildina og spannar starf þessara ólíku námsleiða mikla breidd í sviðslistum. Á næstu misserum ætlar deildin enn að auka námsframboðið og mun bjóða nám í sviðslistum á meistarastigi.  Nýtt nafn deildarinnar endurspeglar vel þá starfsemi sem á sér stað innan hennar.

Það er algengt í þeim erlendu skólum sem Sviðslistadeildin ber sig saman við að nöfn á námsbrautum og deildum breytist í takt við nýja aðferðafræði og breytt landslag listarinnar, en þess má geta að hinn rótgróni Konunglegi leiklistarskóli í Kaupmannahöfn breytti nafni sínu á síðastliðnu ári í Konunglegi Sviðslistaskólinn (Statens Scenekunstskole). 

Fræði og framkvæmd verður sviðshöfundabraut

Ákveðið hefur verið að skerpa enn frekar á nafngiftum innan deildarinnar og gefa námsbrautinni Fræði og framkvæmd nýtt nafn sem lýsir því sem miðlað er í náminu og heitir nú Sviðshöfundabraut. Innan Sviðslistadeildar verða því þrjár námsbrautir; samtímadansbraut, leikarabraut og sviðshöfundabraut, og innan tíðar hefst þar Meistaranám í Sviðslistum.