Nám sem nýtist vel

Mikill meiri hluti svarenda, eða 89% telur að námið hafi nýst þeim mjög vel eða vel í verkefnum og störfum. Eins telur ríflegur meirihluti, eða 76% að námið hafi nýst þeim vel eða mjög vel til frekara náms.  Rúmur helmingur útskrifaðra fara í framhaldsnám eftir útskrift frá LHÍ og þeir velja í auknum mæli nám á meistarastigi eða um 72% útskrifaðra á árunum 2009 og 2011   Það má eflaust rekja til þess  að undanfarin ár hafa verið stofnaðar meistaranámsbrautir við skólann sem hefur vakið umræður um meistaranám og kveikt áhuga nemenda á frekara námi á meistarastigi. 

Aðstæður á vinnumarkaði

Spurt var um hvaða aðstæður lýstu best stöðu svarenda og rúmlega þriðjungur svarenda starfar að hluta sjálfstætt og að hluta sem launþegi. Það er að nokkru leyti í samræmi við störf listamanna því margir þeirra sinna listgrein sinni sem sjálfstætt starfandi, annað hvort einir eða í samstarfi við aðra, sem hluta af sínu starfi.  Konur eru þó líklegri til að starfa sem launþegar og karlar starfa í meira mæli sjálfstætt. Hlutfall útskrifaðra nemenda sem er án vinnu er sambærilegt við atvinnuleysistölur landsins eða um 5%. 

106 einstaklingar svöruðu könnuninni sem samsvarar 40% svarhlutfalli.

Listaháskólinn er eini háskólinn sem hefur kannað reglulega afdrif útskrifaðra nemenda undanfarin ár. Það er Arney Einarsdóttir hjá HRM – rannsóknir og ráðgjöf sem hefur séð um framkvæmd kannananna.