WE LIVE HERE

Sýningin We Live Here hefur væntanlega ekki farið framhjá mörgun sem áhuga hafa á hönnun. Sýningin var samnorrænt verkefni þar sem íslenskir og finnskir hönnuðir rugluðu saman reitum og hófu sambúð í íbúð í Stokkhólmi.
Margir hinna íslensku hönnuða á sýningunni kenna við Hönnunar- og
arkitektúrdeild Listaháskólans og eða námu hér við skólann og má þar
nefna Garðar Eyjólfsson lektor og fagstjóra í vöruhönnun, Tinnu
Gunnarsdóttur aðjúnkt í vöruhönnun og Lindu Árnadóttur lektor í
fatahönnun.

Sýningarstjórarnir Hlín Helga Guðlaugsdóttir, Elina Aalto og Marika
Tesolin lögðu áherslu á það sem er áhugavert í dag, en ekki endilega
spánýtt og vildu þannig draga fram helstu styrkleika íslenskra og
finnskra hönnuða.
Sýningin og viðburðir sem haldnir voru í kring um hana voru vel sóttir og vel fór um fólk íklætt hlýjum ullarsokkum í þessum íslensk-finnska heimi sem skapaður hafði verið. Meðal annars var boðið í innflutningspartý, teboð og haldnar vinnustofur.

SIPP OG HOJ!

Þórunn Árnadóttir vöruhönnuður og kennari við Hönnunar- og arkitektúrdeild Listháskólans var með sýninguna Sipp og hoj! í National Museum í Kulturhuset. Safnið býður reglulega einum hönnuði eða listamanni að sýna inni í skipagámi inni á safninu og Þórunn var sú fyrsta sem boðið var að sýna þar. Innsetningin sem var smækkuð útgáfa af íþróttasal vakti mikla lukku.

EARTH MATTERS

Sýningin Earth Matters sem stýrt var af Lidewij Edelkoort og Philip Fimmano opnaði einnig á hönnunarvikunni í Artipelag. Hún valdi að sýna nútímahönnun sem beinir sjónum að því hve illa við höfum farið með auðlindir jarðar, hönnun sem stingur upp á nýjum lausnum, nýjum aðferðum, nýju viðhorfi og lofsyngur þannig fegurð jarðarinnar. Meðal sýnenda voru Vivienne Westwood, Fernando & Humberto Campana  og Thomas Vailly sem kenndi við Hönnunar- og arkitektúrdeild á síðustu önn. Sýningin stendur fram í maí en einnig er hægt að kynna sér hana með því að skoða flotta sýningarskrá sem er að finna á bókasafninu í Þverholti.

Á myndinni má sjá íðilfögur ljós úr fjöruplasti eftir Jurgen Lehl.

Myndir frá Hönnunarmiðstöð, Tinnu Gunnarsdóttur og Þórunni Árnadóttur.