Styrkinn mun Ingunn nýta fyrir vinnu sína vegna samsýningar sem opnar í Ásmundasafni laugardaginn 18. janúar næstkomandi og einkasýningu í Týsgallerí sem opnar í júní.

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2007, en hafði áður lokið B.A. prófi í listasögu frá háskólanum í Árósum, Danmörku. Undanfarin ár hefur Ingunn Fjóla unnið markvisst að myndlist og tekið þátt í fjölmörgum sýningum. Þar ber helst að nefna einkasýningar í Cuxhavener Kunstverein, Hafnarborg og Gallerí Ágúst, þátttöku í alþjóðlega tvíæringnum Prague Biennale, sýningunni Rými málverksins í Listasafni Akureyrar auk fleiri samsýninga hérlendis sem erlendis.

Í verkum sínum hefur Ingunn aðallega fengist við málverk og innsetningar. Verk hennar eru oftast bundin ákveðnu rými þar sem hún notar aðferðir málaralistarinnar til að umbreyta rýminu eða byggja þrívíðar innsetningar sem áhorfandinn gengur inni í. 

Á ferli sínum hefur Ingunn Fjóla hlotið ýmsa styrki og viðurkenningar svo sem hvatningastyrk Hafnarfjarðarbæjar til ungra listamanna árið 2009, styrk úr styrktarsjóði Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttir árið 2012 og var nú nýverið tilnefnd til hinna virtu myndlistarverðlauna Carnegie Art Award 2014. Ingunn Fjóla hefur tvisvar áður hlotið starfslaun úr launasjóði myndlistarmanna.

Undanfarin ár hefur Ingunn Fjóla bæði starfað við eigin myndlistarverkefni og verið virk sem annar helmingur tvíeykisins Hugsteypunnar. Ingunn hefur einnig verið virkur þátttakandi í starfsumhverfi myndlistar, til að mynda starfað á skrifstofu SÍM þar sem hún hafði umsjón með gestavinnustofum fyrir erlenda myndlistarmenn, sinnt starfi framkvæmdastjóra Nýlistasafnsins um tveggja ára tímabil og gegnir í dag starfi verkefnastjóra myndlistardeildar Listaháskóla Íslands. Ingunn hefur einnig setið í stjórn Listskreytingarsjóðs og í stjórn Sequences myndlistarhátíðar. 

Sjá líka: