Myndin vann til verðlauna í flokki stuttmynda á Cannes- hátíðinni í Frakklandi í vor og er hún fyrsta íslenska kvikmyndin sem vinnur til verðlauna á hátíðinni sem er ein sú virtasta í kvikmyndaheiminum.

Hvalfjörður sýnir sterkt samband tveggja bræðra sem búa á litlum sveitabæ ásamt foreldrum sínum. Áhorfendur fá að skyggnast inn í heim þeirra út frá sjónarhorni yngri bróðurins og fylgja honum í gegnum örlagaríka daga sem marka þáttaskil í lífi bræðranna.

Hvalfjörður var ein af 9 stuttmyndum sem tóku þátt í aðalkeppni Cannes kvikmyndahátíðarinnar. Guðmundur er einnig handritshöfundur og annar framleiðenda myndarinnar ásamt Antoni Mána Svanssyni.  Meðframleiðendur eru Sagafilm, Danirnir Darin Mailand-Mercado og Jacob Oliver Krarup ásamt Rúnari Rúnarssyni. Með aðalhlutverk fara Ágúst Örn B. Wigum og Einar Jóhann Valsson. Tökumaður myndarinnar er Gunnar Auðunn Jóhannsson.

Þetta er í þriðja sinn sem íslenskri stuttmynd hlotnast sá heiður að vera valin til aðalkeppni í flokki stuttmynda á Cannes. Áður hafði stuttmynd Ingu Lísu Middleton, Ævintýri á okkar tímum, keppt um Gullpálmann árið 1993 og sömu sögu er að segja af stuttmynd Rúnars Rúnarssonar, Smáfuglar, sem keppti um Gullpálmann árið 2008.