Fríða Björk Ingvarsdóttir
18. febrúar 2015

Festum hendur á því óræða og bjóðum hefðum byrginn

Leikmenn horfa yfirleitt fyrst og fremst til hönnunar á forsendum hluta eða vöru, ekki síst klassískrar vöru sem hefur getið sér sérstaks orðspors sem góð hönnun. Við erum þá að máta hönnunina inn til okkar eða utan um okkur, í hlutum, klæðum eða byggingum –sjáum hana sem tæki til að bæta lífsstíl okkar eða jafnvel ímynd. Hönnun er óumdeilanlega áhrifamikið tæki í lífi þeirra sem eru meðvitaðir neytendur góðrar hönnunar. Þar fyrir utan snertir hún ótrúlega margar fleti í daglegu lífi okkar allra, einnig þeirra sem engan áhuga hafa á hönnun, því allt í kringum okkur blasir hönnunin við. Mjólkurfernur, Ikeahúsgögn, auglýsingar, HM föt, staðlaðar byggingar; allt er þetta hannað út frá tilteknum forsendum og með ákveðin markmið í huga, rétt eins og það sem neytendur skilgreina sem hreina eða “æðri” hönnunarvöru.

Þessi hefðbundna sýn okkar flestra á hönnun er þó í reynd mjög takmarkandi og lítur framhjá þeirri skapandi hugsun sem er drifkraftur allrar hönnunar. Hún lítur framhjá þeim lausnum og möguleikum sem felast í frumleikanum; ekki einungis til að koma á óvart, auðvelda okkur lífið eða fegra umhverfið, heldur beinlínis til að skapa okkur raunhæfa og lífvænlega framtíð.

Um nokkurt skeið hafa ný viðmið í hönnun verið að ryðja sér rúms inn í meginstrauminn. Þau bera vitni um hugarfarsbreytingu þar sem áherslum í hönnun er hnikað til í þágu framtíðarinnar út frá gildum sjálfbærni. Enn og aftur er frumleikinn á ferð, löngun til að takast á við veruleikann og sköpunina á nýjum forsendum og samkvæmt nýrri hugmyndafræði.

Það er ef til vill engin tilviljun að svona straumar skuli koma upp í kjölfar aldarmóta, þegar tíminn beinlínis kallar á skil og með þeim nýja hugmyndafræði. Síðustu aldamót voru aukinheldur þúsaldarmót, sem vissulega felur í sér ögrun og hvatningu til að huga að framtíðinni með afkomu mannkyns sem heildar í huga. En það er einmitt þar sem hönnun á eftir að gegna lykilhlutverki. Góð hönnun snýst nefnilega um svo margt umfram það að fylgja tísku og trendum. Hún er lífsspursmál í stóra samhenginu, þegar til lengdar er litið. Hún er forsenda framfara, betri nýtingar auðlinda, sjálfbærni vistkerfa og vitaskuld varanlegri lífsgæða.

Ef við gerum litlar kröfur til hönnunar þá markar hún fyrst og fremst hið manngerða umhverfi án eiginlegar vísunar út fyrir þann ramma. Góð hönnun getur hins vegar orðið til þess að búa lífi okkar nýja umgjörð; skapað nýjan skilning þar sem hinn manngerði heimur rennur átakalaust saman við raunveruleika náttúrulegs umhverfis í hugmyndafræðilegum skilningi. Til þess að svo megi verða þurfum við að hlera og hlusta, festa hendur á því óræða og bjóða hefðum byrginn.

Í góðri hönnun er hvorki þversögn í því að tvinna saman tilraunir og samfélagið, né í því að líta á hvert hönnunarverkefni sem félagslegt verkfæri og gagnvirkt samtal við fortíð (söguna), samtíð (tíðarandann) og framtíð (þverrandi auðlindir). Þeir möguleikar sem felast í framsækinni hönnun eru óendanlegir, öfugt við það sem fólst í neysluhyggju síðstu aldar. Það er samfélagsins að styðja við þann óendanleika; við það skapandi frelsi sem góður hönnuður þarf til að ná árangri í sínu starfi, okkur öllum til hagsbóta.

Hönnunarmars er faglegur vettvangur skapandi umræðu, en einnig samfélagsleg tilraun, ögrun og áskorun sem allir geta tekið þátt í. Hann er rót hugarfarsbreytingar, tilefni til að endurskoða ímyndir og íhuga það umhverfi sem við búum okkur. Hann er tækifæri til að þróa lengri tíma hugsun, leið til að takast á við sannleikann og ekki síst; bregðast við þeim sannleika með farsælum hætti í nýjum viðhorfum til alls þess umbúnaðar sem lífsmáti okkar og framtíðartilvist byggir á.