Hildigunnur mun nota styrkinn til áframhaldandi skoðunar á hinum ósýnilegu en alltumlykjandi strúktúrum samfélagsins og tengslum þeirra við hið manngerða umhverfi - og öfugt.

Í þessu samhengi má líta á arkitekúr sem aðferðarfræði sem getur lýst öllum gerðum manngerðs umhverfis, ekki bara húsbyggingum heldur líka huglægum strúktúrum; samningum, loforðum, tungumáli, lögum og vonum. Rannsóknin fer fram jöfnum höndum í teikningum og texta og hyggst beita líkönum og svokallaðri rýmisvörpun til að einangra, greina og skoða mannleg kerfi og hvernig þau birtast og hafa áhrif á okkur.  

Hildigunnur hefur í gegnum verk sín og kennslu einbeitt sér að félagslegu, pólítisku og verufræðilegu hlutverki arkitektúrs.  Hún stundaði arkitektúrnám sitt í París og Kaupmannahöfn, útskrifaðist frá Kunstakademiets Arkitektskole árið 2004 og hefur undanfarinn áratug sinnt jöfnum höndum hefðbundnum teiknistofustörfum hérlendis og erlendis, sem og óhefðbundnari mótun samhengis og sköpunar, sinnt fræðastarfi og kennslu meðal annars við Listaháskóla Íslands, ásamt því að sinna ýmsu uppbyggingar- og félagsstarfi á ýmsum vettvangi. Hildigunnur hefur kennt við LHÍ frá 2006 og sinnt starfi fagstjóra í arkitektúr frá 2012.