WATCH, handbók um hópráðgjöf, er nýútkomin hjá sænka útgáfufélaginu Tremedia. Höfundar hennar eru þrír íslenskir náms- og starfsráðgjafar, þær Anna Sigurðardóttir, ráðgjafi hjá Mími-símenntun og Myndlistaskólanum í Reykjavík og rekur einnig eigið ráðgjafafyrirtæki, Björg J. Birgisdóttir, námsstjóri hjá Listaháskóla Íslands og Sigríður Hulda Jónsdóttir, framkvæmdastjóri hjá SHJ ráðgjöf. 

WATCH handbókin kom fyrst út á ensku árið 2004 sem afurð í stóru Leonardo verkefni. Danska útgáfufélagið Schultz gaf bókina síðan út á dönsku fyrir tveimur árum og nú er bókin einnig komin út á sænsku. 

WATCH er ætluð fyrir náms- og starfsráðgjafa og aðra sérfræðinga sem vinna með einstaklingum sem standa á krossgötum í eigin lífi t.d. varðandi nám eða starfsþróun, svo og nemendur sem teljast  í brotthvarfshættu úr skóla. Í bókinni eru settar fram 15 hópráðgjafastundir með leiðbeiningum um hvernig unnt er að nýta hópráðgjöf í því skyni að efla árangur, tileinka sér markmiðssetningu o.fl. Höfundar hafa haldið námskeið um hópráðgjöf og inntak bókarinnar víða, meðal annars í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Grikklandi, Slóveníu, Tékklandi og Austurríki. 

Tremedia bauð höfundum til  Gautaborg um síðustu helgi til að kynna bókina í útgáfuboði sem haldið var fyrir fagaðila í Svíþjóð. Höfundar  árituðu yfir 200 eintök, en sala bókarinnar fer mjög vel af stað í Svíþjóð, enda bókin hlotið afar  góða dóma bæði í Danmörku og Svíþjóð. WATCH handbókin er kennd í Malmö háskóla, Háskóla íslands og notuð af ráðgjöfum og fagfólki í ýmsum löndum Evrópu.