Guðný Guðmundsdóttir var sæmd heiðursprófessor við Listaháskóla Íslands á útskriftarathöfn skólans 9. júní 2018. 

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor, sagði í ávarpi sínu til Guðnýjar við þetta tilefni: 

"Guðný var fyrirmynd þegar hún kornung lagði land undir fót til að mennta sig erlendis. Því þegar hún var að alast upp var svo sannarlega ekki sjálfgefið hér á landi að konur færu yfirleitt í framhaldsnám, hvað þá í útlöndum. Hún lauk bakkalárprófi með láði frá Eastman School of Music við Rochester háskólann í Bandaríkjunum, og síðan diploma prófi frá Royal College of Music í London, áður en hún hóf meistaranám við tónlistardeild hins virta Julliard háskóla í New York, þaðan sem hún útskrifaðist árið 1974.
 
Sama ár, með sitt glænýja meistarapróf, tók Guðný við stöðu konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands, þá aðeins 26 ára gömul - starfi sem hún gegndi allt til ársins 2010. Í því samhengi er enn frekari ástæða til að rifja upp þann frumkvöðulsanda sem fylgt hefur Guðnýju í gegnum tíðana og þá fyrirmynd sem hún hefur verið í íslensku listalífi.
 
Því þótt okkur kunni að sýnast það undalegt í dag þá áttu konur árið 1974 svo sannarlega ekki vísan frama í hljómsveitarstarfi víðast hvar í heiminum - og reyndar enn síður í Evrópu heldur en í Bandaríkunum. Til marks um hversu andsnúinn þessi vettvangur var konum allt fram á síðustu tíma má nefna að það var ekki fyrr en árið 1982 - sex árum eftir að Guðný tók við stöðu konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitarinnar hér, að hin fræga hljómsveit Berlínar Filharmónían hleypti fyrsta kvenkynshljóðfæraleikaranum inn hjá sér. Fílharmónían í Vínarborg - eitt höfuðvígí klassísks tónlistarflutnings - reyndist konum enn erfiðari hjalli því þar var ekki ráðin kona til starfa fyrr en árið 2003 - og þá eftir harða opinbera gagnrýni fyrir karllæg viðhorf og mismunun.
 
Guðný var konsertmeistari Sinfóníunnar allt til ársins 2010 og á þeim langa ferli varð íhaldsamur tónlistarheimurinn smám saman talsvert umburðarlyndari í garð hæfileikaríkra kvenna. Alls ekki ekki á sama hraða um heim allan, en hér á landi má leiða líkur að því að fagmennska Guðnýjar og óbilandi kraftur hafi styrkt bakugga helstu forystukvenna í íslensku tónlistarlífi.
 
Hún leiddi hljómsveitina undir stjórn heimsþekktra hljómsveitarstjóra, auk þess að leika með mörgum frægustu einleikurum og einsöngvurum heims. Sem konsertmeistari frumflutti hún m.a. á Íslandi þrjá af einna viðamestu fiðlukonsertum tuttugustu aldarinnar ; konserta Stravinskys, Elgars og Brittens, en þeir höfðu ekki áður heyrst hérlendis."