Verkefnið vann hann með Birni Theódórssyni fiskeldisfræðingi og verkfræðingunum Eiríki Rafni Björnssyni og Nönnu Einarsdóttur. Ægisgildran er ómannað gildruveiðarfæri sem notast við viðbragðsskilyrði og flokkunarhugbúnað til að fanga fiska eftir tegundum og stærð með vistvænum hætti. Tækið kemur skilaboðum um stöðu gildrunnar í land og heldur fiskinum lifandi þar til réttar aðstæður hafa skapast til að vinna hann og koma á markað.

Það er Klak Innovit sem stendur árlega fyrir Gullegginu, frumkvöðlakeppni sem er haldin að fyrirmynd MIT háskóla í Bandaríkjunum og VentueCup á Norðurlöndunum. Meginmarkmið keppninnar er að skapa vettvang fyrir ungt athafnafólk til að öðlast þjálfun og reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda og rekstri fyrirtækja. Keppnin er ákveðinn gæðastimpill á viðskiptahugmyndir frumkvöðla sem laðar að sér fjárfesta, skapar ný störf og verðmæti fyrir íslenskt þjóðfélag. Í ár bárust 377 hugmyndir í keppnina en aldrei áður hafa eins margar umsóknir um styrki borist. 

Þau 10 verkefni sem komust í úrslit Gulleggsins 2014 eru:

Brum Funding – Fjármögnun sprotafyrirtækja (e. crowdfunding)
EcoMals – Orkunotkun útskýrð fyrir börnum
Gracipe – The Graphical Recipe – Sjónrænar uppskriftir
Litla gula hænan – Vistvæn kjúklingaframleiðsla
Memento - Rafrænt tengslanets greiðslukerfi
Mulier – Nýstárleg undirföt fyrir konur
Radiant Games - Tölvuleikjagerð
Solid Clouds - Tölvuleikjagerð
SuitMe – Sýndar-mátunarklefi á netinu
Ægisgildra – Ný aðferð við fiskveiðar

Þeir aðilar sem standa að þessum verkefnum fá aðstoð við að undirbúa sig fyrir lokadaginn sem verður laugardaginn 8. mars. Þá verða kynningar fluttar fyrir dómnefnd sem velur sigurvegara Gulleggsins 2014.