Sérstök áhersla var lögð á arkitektúr að þessu sinni þar sem verkefnið Hæg breytileg átt fékk sérstakan stuðning. Úthlutað var til fimm annara verkefna og eru fjórir fyrrverandi nemendur hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskólans meðal þeirra sem hlutu styrki að þessu sinni.

Guðni Björn Valberg sem útskrifaðist með BA í arkitektúr 2007 fékk framhaldsstyrk ásamt Önnu Dröfn Ágústsdóttur sagnfræðingi. Þau eru að undirbúa gerð bókarinnar Reykjavík eins og hún hefði orðið. Þar sem fjallað er um sögu hönnunar og staðarval margra helstu bygginga í Reykjavík.

Jör, fyrirtæki Guðmundar Jörundssonar sem útskrifaðist með BA í fatahönnun 2011 hlaut styrk til vöruþróunar og prótótýpugerðar vegna haust og vetrarlínu fyrirtækisins fyrir árið 2014.

Klara Arnalds sem útskrifaðist með BA gráðu í grafískri hönnun vorið 2012 fékk styrk til starfsnáms hjá fyrirtækinu Karlsonwilker í New York en þar mun hún vinna undir handleiðslu Hjalta Karlssonar og Jan Wilker.

Guðrún Harðardóttir sem útskrifaðist með BA gráðu í vöruhönnun vorið 2012 fékk styrk til starfsnáms hjá Statens Værksteder for Kunst í Kaupmannahöfn.