Fagráð Listaháskóla Íslands var sett á stofn haustið 2009 sem samráðs- og upplýsingavettvangur stjórnenda, kennara og nemenda skólans. Á vettvangi fagráðsins hafa fagleg málefni skólans, stefnumörkun og hlutverk verið rædd, sem og gæðamál og stefnumótun í rannsóknum og listsköpun. Hlutverk fagráðsins var upphaflega að veita rektor og stjórn stuðning við ákvörðunartöku um akademísk málefni, en staða þess í stjórnkerfi skólans hefur þó verið nokkuð óljós. Nú hefur fagráðið verið endurskipulagt og því gefið aukið vægi innan skólans, þar sem það er skilgreint sem leiðandi fyrir stjórnendur í akademískum málefnum. Meðal þess sem fagráð fjallar um eru tillögur um samsetningu náms, viðmið um gæði náms og námskröfur, stefnumál í rannsóknum og listsköpun, og víðari skilgreiningar á þróun skólans og hlutverki. 

Fagráð hefur frumkvæði að málefnaskrá sinni auk þess að taka við málefnum frá rektor og framkvæmdaráði, deildarráðum og nefndum skólans. Fagráð skipar í kennslunefnd og rannsóknanefnd og nýtur stuðnings þeirra við ályktanir um málefni tengd þeirra starfsviði en getur einnig skipað vinnuhópa til að fjalla um önnur málefni. Málefni sem fagráð ályktar um eru lögð fyrir framkvæmdaráð til samráðs og áframhaldandi eftirfylgni í deildum og á stoðsviðum skólans.

Meðlimum fagráðs hefur verið fækkað úr 18 í 11 og þar sitja nú rektor, fulltrúi deildarforseta, fimm fulltrúar fastráðinna kennara skólans, tveir fulltrúar stundakennara og tveir fulltrúar nemenda, einn úr grunnnámi og annar úr framhaldsnámi. 

Fagráð Listaháskóla Íslands 2014-15 er þannig skipað:

Aðalheiður L. Guðmundsdóttir, aðjúnkt við Myndlistardeild 

Dóra Haraldsdóttir, BA-nemi við Hönnunar- og arkítektúrdeild 

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor 

Garðar Eyjólfsson, lektor við Hönnunar- og arkítektúrdeild 

Magnús Þór Þorbergsson, formaður, lektor við Sviðslistadeild 

María Dalberg, MA-nemi við Myndlistardeild 

Páll Ragnar Pálsson, stundakennari við Tónlistardeild 

Rúna Thors, stundakennari við Hönnunar- og arkítektúrdeild 

Steinunn Knútsdóttir, deildarforseti Sviðslistadeildar 

Vigdís Jakobsdóttir, aðjúnkt við Listkennsludeild 

Þorbjörg Daphne Hall, lektor við Tónlistardeild