Á tónleikunum verður meðal annars stuðst við þróunarverkefni hljóðrannsóknarhóps LornaLab, sem hefur starfað að endurhönnun klarínettubaula (e. barrel) í haust í samstarfi við Stefán Ólaf Ólafsson, nemanda tónlistardeildar LHÍ. Um ræðir nokkrar plasprentaðar tilraunir á klarínettubaulum sem hafa áhrif á blæbrigði og virkni hefðbundins klarínets. Hljóðrannsóknarhópur LornaLab er í nánu samstarfi við Rannsóknarsetur Tónlistardeildar LHÍ og með aðsetur í húsakynnum tónlistardeildar á Sölvhólsgötu.

S.L.Á.T.U.R. fagnar nýju ári með sérstökum Nýárstónleikum þar sem flutt verður glæný tónlist fyrir klarinettur sem hafa verið undirbúnar sérstaklega, breyttar og endurhannaðar til að kalla fram nýjan hljóðblæ, nýjar stillingar og framlengja möguleika hljóðfærisins. Klarinettan hefur lengi þótt seiðandi og kyngimagnað hljóðfæri vegna hins sérstaka hljóðs sem hún framkallar. Yfirtónaröð klarinettunnar er einstök í hópi blásturshljóðfæra og tæknilegir möguleikar hljóðfærisins varðandi tón- og styrkleikasvið eiga sér fáa jafningja. Hins vegar hefur lítið verið gert í að breyta og bæta klarinettuna. Málmblásturshljóðfæri nota dempara og frægt er hið „undirbúna“ píanó sem notar ýmis áhöld til að breyta tónum hljóðfærisins. Á nýárstónleikunum munu tónskáld S.L.Á.T.U.R. hins vegar vinna með þann efnivið sem klarinettan er og umbreyta eða umbylta gerð hljóðfærisins og virkni. Fjórir klarinettuleikarar munu flytja tónlistina sem verður fjölbreytt og fjölvíð.

Tónleikarnir eru haldnir á tónleikastaðnum Mengi, Óðinsgötu 2, föstudaginn 10. janúar kl. 21. Aðgangseyrir er 2.000 kr.