Að þessu sinni fengu tvær ungar tónlistarkonur úthlutað úr sjóðnum. Þær Elísabet Einarsdóttir söngkona og Jane Ade Sutarjo píanóleikari en þær útskrifuðust frá tónlistardeild Listaháskóla Íslands síðastliðið vor. Báðar hljóta þær 500.000 kr. í styrk.

Elísabet Einarsdóttir ólst upp í Gautaborg í Svíþjóð. Hún byrjaði að læra á píanó átta ára gömul hjá Catarina Lorenzon og fór snemma að syngja í kór. Árið 2008 hóf Elísabet klassískt söngnám við Listaháskóla Íslands þar sem söngkennari hennar hefur verið Elísabet Erlingsdóttir en auk þess stundaði hún nám í píanóleik hjá Peter Máté. Hluta af námstímanum dvaldi Elísabet í Mílanó sem skiptinemi við Conservatorio di Musica Giuseppe Verdi og stundaði þar nám hjá Daniela Uccello og Önnu-Maríu Paganini.

Jane Ade Sutarjo fæddist í Jakarta í Indónesíu árið 1989. Hún hóf tónlistarnám ung að aldri, fyrst á píanó og síðar á fiðlu. Haustið 2008 flutti Jane til Íslands þar sem hún hóf nám við tónlistardeild Listaháskólans. Jane lauk einleikaranámi á fiðlu vorið 2011 en hefur samhliða lagt stund á einleikaranám á píanó undir leiðsögn Nínu Margrétar Grímsdóttur og Peter Máté. Jane hefur haldið einleikaratónleika og komið fram sem einleikari með hljómsveitum í Indónesíu auk þess sem hún hefur tekið þátt í tónlistarhátíðum í Indónesíu, Bandaríkjunum og á Íslandi. Hún hefur tekið þátt í píanókeppnum í Indónesíu og á Íslandi og hlaut árið 2009 önnur verðlaun í EPTA-píanókeppninni hér á landi. Í janúar 2011 kom Jane fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands þar sem hún flutti píanókonsert no. 1 eftir Chopin.

Um styrkarsjóð Halldórs Hansen

Halldór Hansen, barnalæknir,  ánafnaði Listaháskóla Íslands veglegt tónlistarsafn sitt og arfleiddi skólann að öllum eigum sínum þegar hann lést árið 2003. Meginmarkmið sjóðsins er að styrkja uppbyggingu og styðja við tónlistarsafn skólans. Auk þess veitir sjóðurinn árlega styrki til tónlistarnema sem hafa, að mati sjóðstjórnar, náð framúrskarandi árangri á sínu sviði. Styrktarsjóður Halldórs Hansen var formlega stofnaður 2004 og er þetta í áttunda sinn sem veitt eru verðlaun úr sjóðnum.

Stjórn sjóðsins skipa:

  • Hjálmar H. Ragnarsson, rektor
  • Mist Þorkelsdóttir, deildarforseti tónlistardeildar
  • Árni Tómas Ragnarsson, læknir
  • Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarfræðingur
  • Guðrún Norðdal, forstöðumaður stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum