Tónleikarnir bera yfirskriftina Nýir strengir en á þeim leikur finnski sellóleikarinn Markus Hohti á ný íslensk strengjahljóðfæri. Á tónleikunum leikur Hohti á nýjustu útgáfu hljóðfærisins dórófónn sem er verkefni Halldórs Úlfarssonar myndlistarmanns og tæknimanns verkstæðis hönnunar- og arktítektúrdeildar Listaháskólans.

Halldór hóf vinnu við hljóðfærið árið 2003 og hefur síðan þá unnið að þróun þess í ýmsu samhengi. Dórófónar eru raf-akústískt strengjahljóðfæri sem nýta hljóðbakflæði (e. audio feedback) til að framkalla hljóm í strengjum og segja má að tónlitur þess liggi á milli þess að hljóma eins og orgelpípa, rafmagnsgítar og strokið strengjahljóðfæri. Hljóðfærið hefur verið útfært í nokkrum útgáfum og spilað verður á áttundu útgáfa þess, sem samanstendur af fjórum aðalstrengjum ásamt fjórum með-ómandi strengjum. Stilling aðalstrengjanna hefur verið áþekk stillingu sellós en hefur fallið neðar hægt og bítandi með aukinni notkun og er nú oft um þríund neðar, þó er allur gangur á því. Stillingin ómstrengjanna er hins vegar opin. Dórófónar hafa komið víða við og verið sýndir á hönnunar- og listasýningum víðs vegar um Evrópu auk þess sem þeir hafa verið notaðir í tónsmíðum Stephen O´Malley í hljómsveitinni Sunn 0))) og af hljómsveitinni The Knife og í verkum nokkurra yngir tónskálda.

Á tónleikunum verður einnig leikið á nýtt selló Hans Jóhannssonar, fiðlusmiðs.

Fjölbreytt efnisskrá

Á efnisskrá tónleikanna eru fjölbreytt verk eftir innlend og erlend samtímatónskáld, þeirra á meðal samlanda Markusar, þá Kaiju Saariaho og Sami Klemola, auk verka eftir Simon-Steen Andersen. Á tónleikunum verður jafnframt frumflutt nýtt verk eftir Guðmund Stein Gunnarsson fyrir dórófón.

Markus Hohti  kemur reglulega fram á tónleikum víðsvegar um Evrópu og leikur allt frá klassískri kammertónlist yfir í  tónlist samtímans. Hann hefur frumflutt yfir hundrað einleiks- og kammerverk og unnið náið með mörgum þekktum tónskáldum.

Aðgöngumiðar á tónleikana eru seldir í afgreiðslu Hafnarborgar, á opnunartíma safnsins og klukkustund fyrir tónleika. Hægt er að panta miða í s. 585-5790. Almennt miðaverð er kr. 2500, fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1500.

Hljóðön 2014 – 2015

Í vetur verða fernir tónleikar í tónleikaröð Hafnarborgar Hlóðön sem vakið hefur athygli fyrir að kynna tónlist 20. og 21. aldar þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Listrænn stjórnandi Hljóðanar er Þráinn Hjálmarsson.

Ljósmyndin með fréttinni er tekin í Raftónlistarstúdíói Helsinkiháskóla og hljóðfærið er dórófónn#8. Á myndinni eru My Hellgren (SE) sellisti, Johan Svensson (SE) tónskáld og Jari Suominen (FI) tónlistarmaður og tæknimaður í Stúdíói.