Megin viðfangsefni listrænnar hugsunar Tiong Ang eru sameiginlegt minni, útilokun, hið staðbundna og hnattræna. Verk hans Pavilion of Distance fæst við mismunandi stig meðvitundar og líkamann, sem lætur oft gegn vilja sínum, meðvitað eða ómeðvitað, stjórnast af þeim (fjöl)miðlum sem á okkur dynja. Ang sýnir okkur hvernig miðlarnir setja ekki einungis mark sitt á hugmyndir okkar um raunveruleikann heldur hafa einnig áhrif á það hvernig við skynjum staði og atburði.

Í verkum sínum kannar Clodagh Emoe hvernig hugsun breytist í gjörðir með tilraunakenndum eiginleikum listaverksins. Hún leitast við að skapa möguleika í listrænni hugsun í gegnum bein áhrif. Hún leitar í brunn endurtekinna athafna, t.a.m. trúarlegra, þar sem hún fer út yfir skýrar og fyrirframgefnar leikreglur á táknrænan hátt. Hún notast við táknmyndir eins og flögg og svið en fer út fyrir hefðbunda notkunarmöguleika þeirra með því að sviðsetja atburði og spila á merkinguna sem áhorfandinn leggur í þá. Verkið Mystical Anarchism er heimild um sviðsettan miðnæturfyrirlestur sem fluttur var af Simon Critchley árið 2009. Verkið er framleitt af Emoe og Thomas McGraw Lewis.

Hugmyndalistamaðurinn Jan Kaila nýtir sér söguleg heimildasöfn og fundna hluti, ásamt þeirri þöglu þekkingu sem í þeim búa. Hann fer óbeint að viðfangsefninu, festir umfjöllunarefni sín á filmu og setur þau upp á myndböndum og í innsetningum. Í gegnum túlkun sína ljær hann verkinu The Sleepers eigin fagurfræði og hugmyndafræðilega yfirhönd yfir það sem við köllum í daglegu tali staðreyndir.

Mick Wilson vinnur á svipuðum nótum en út frá annarskonar miðlum. Hann notast við hljóðheim þar sem hann endurvinnur kunnugleg stef úr sálmum og handritum af trúarlegum uppruna. Í verkinu Around the Food Thing er merkjanleg tilraun til að endurhugsa og skapa pólitíska möguleika ímyndunaraflsins úr frá sjónarhóli trúleysingjans, með því að beita trúarlegu tungumáli sem í sjálfu sér inniheldur þrá til að ná út yfir þann ramma sem það setur sér.

Roger Palmer nýtir sögulega viðburði sem grunnefnivið í verkum þar sem hann skoðar samband áhorfandans við tungumál og myndmál. Hann vinnur í mismunandi miðla; ljósmyndir, málverk, texta og þrívídd. Fjarlægðin sem mannkynssagan ljær verki Palmers …the ship was jammed between high rocks... umbreytir því í ljóðrænu og vettvang óþekktra sagna þar sem öll fyrirbæri lífsins eru einsog í stöðugri umbreytingu.

Í rannsóknarverkefninu Situation in Osh gerir ljósmyndarinn Japo Knuutila að viðfangsefni sínu tækifæri manneskjunnar til aðgerða innan þess ramma sem hnattvæðingin gefur. Síðastliðna áratugi hefur Knuutila unnið á mismunandi jaðarsvæðum eins og hafnarsvæðum, lokuðum iðnaðarsvæðum og um borð í fraktskipum. Verkið er unnið í anda fjölmiðlaorðræðu en dregur ekki upp mynd af raunveruleikanum heldur fæst við möguleika myndmáls og túlkunar á mörkum nærveru og fjarveru, innlimunar og útilokunar.

Verk sýningarinnar Dómgreindin er spegill hafa áhrif hvert á annað í gegnum samtal mismunandi myndmálsnotkunar, sögulegra frásagna og miðlatengdra hugleiðinga. Rýnt er í tilhneiginguna til að draga úr og einfalda táknmyndir og í innri rökheim heimildasafna.
Á sama tíma býður sýningin uppá annarskonar möguleika en ríkjandi eru í listrænni hugsun með beitingu gagnrýns ímyndunarafls. Þetta samtal vísar einmitt í þau vegamót sem listmenntun dagsins í dag ætti að vera staðsett á. Titill sýningarinnar er fengin frá hljómplötu Dalis Car The Waking Hour frá árinu 1984.

Á málþingi í myndlistardeild Listaháskóla Íslands munu listamenn sýningarinnar ræða með hvaða hætti og hvers vegna umfjöllunarefni sýningarinnar á erindi til listmenntunar dagsins í dag. Málþingið fer fram á opnunardegi sýningarinnar, 19. janúar, kl. 13-16.30, og er opið almenningi.

Tiong Ang er hollenskur myndlistarmaður fæddur í Indónesíu en býr og starfar í Amsterdam, Roger Palmer er fæddur í Englandi og Jan Kaila og Japo Knuutila eru finnskir. Clodagh Emoe og Mick Wilson eru bæði írskir myndlistarmenn.  Sýningarstjóri sýningarinnar, Henk Slager, er hollenskur sýningarstjóri og fræðimaður, hefur starfað ötullega við kennslu á framhaldsstigi, stýrt fjölda sýninga, stundað ritstörf og gefið út efni, nú síðast, The Pleasure of Research, sem út kom á nýliðnu ári. Öll hafa þau komið að kennslu, rannsóknartengdri listsköpun og skrifum um myndlist samhliða því að vera virk í sýningahaldi á alþjóðlegum vettvangi.

Nýlistasafnið

Dómgreindin er spegill / The Judgement is the Mirror
Skúlagata 28, 101 Reykjavík
Opnun 19. janúar, klukkan 17:00
Sýningartími 20. janúar – 24. mars 2013
Opnunartími er þriðjudaga til sunnudaga frá 12:00-17:00

Málþing

Listaháskóla Íslands, myndlistardeild
Laugarnesvegi 91, 104 Reykjavík
Laugardagur 19. janúar, klukkan 13:00-16:30