Að þessu sinni fengu veir ungir tónlistarmenn úthlutað úr sjóðnum. Þau Baldvin Ingvar Tryggvason klarínettuleikari og Jónína Björt Gunnarsdóttir söngkona en þau útskrifuðust bæði með B.Mus gráðu frá tónlistardeild Listaháskóla Íslands síðastliðið. Fær hvort þeirra styrk að upphæð 600.000 kr. úr sjóðnum.

Nánari upplýsingar um Baldvin Ingvar Tryggvason

Baldvin Ingvar Tryggvason er 22 ára gamall Álftnesingur. Hann hóf klarinettunám sitt við Tónlistarskóla Álftaness sjö ára gamall, en færði sig síðar yfir í Tónlistarskólann í Reykjavík. Kennari hans þar var Kjartan Óskarsson. Haustið 2011 hóf hann nám við tónlistardeild Listaháskóla Íslands undir leiðsögn Einars Jóhannessonar og útskrifaðist með B.Mus gráðu í vor.

Baldvin hefur komið víða fram opinberlega. Hann hefur meðal annars leikið með Sinfóníhljómsveit Unga fólksins, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Ungsveit Sinfóníu hljómsveitar Íslands, en þar hefur hann gegnt stöðu leiðara þrisvar sinnum. Í janúar var hann einn af sigurvegurum keppninnar Ungir Einleikarar og lék hann klarínettukonsert eftir Aaron Copland á tónleikum í Eldborgarsal Hörpu með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Einnig lék hann á klarinett í sýningu Þjóðleikhússins á Dýrunum í Hálsaskógi. Hann hefur sótt ýmis meistaranámskeið, meðal annars hjá Martin Fröst, Barnaby Robson, Hermanni Stefánssyni og Gregory Barrett.

Baldvin þreytti inntökupróf við Royal College of Music í London í desember s.l. og í framhaldi af því var honum boðið sæti í meistaranámi við skólann í klarínettuleik. Hann verður þar undir leiðsöng klarínettuleikarans Barnaby Robson, sem heimsótti LHÍ á síðasta skólaári. Skólagjöld eru fremur há í Englandi og er því veiting úr styrktarsjóði Halldórs Hansen gífurlega mikilvægur.

Nánari upplýsingar um Jónínu Björt Gunnarsdóttur

Jónína Björt Gunnarsdóttir er fædd á Akureyri árið 1990. Hún hóf píanónám í Stórutjarnarskóla sjö ára gömul en skipti yfir í fiðlunám hjá Jaan Alavere níu ára. Seinna flutti hún til Akureyrar og hélt þar áfram fiðlunámi við Tónlistarskólann á Akureyri undir leiðsögn Tiinu Kuusmik. Sautján ára gömul færði hún sig yfir í söngnám undir leiðsöng Eydísar S. Úlfarsdóttur og Daníels Þorsteinssonar.

Jónína lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 2010. Vorið 2011 lauk hún framhalsprófi í klassískum söng. Þá um haustið hóf hún nám í söng við Listaháskóla Íslands þar sem kennarar hennar hafa verið Ólöf  Kolbrún Harðardóttir og Selma Guðmundsdóttir. Á öðru ári í LHÍ fór hún í skiptinám í hálft ár til Ítalíu þar sem kennari hennar var Amelia Felle.  Hún hefur sótt námskeið hjá ýmsum söngkennurum s.s. Elísabetu Erlingsdóttur, Þóru Einarsdóttur,  Michael Jon Clarke, Kristni Sigmundssyni, Elsu Waage, Eliisu Suni, Þórunni Guðmundsdóttur o.fl.

Jónína hefur komið fram víða, bæði sem einsöngvari og með kórum svo sem, Óperukór Reykjavíkur, Kammerkór Norðurlands o.fl. Hún hefur tekið þátt í ýmsum leiklistarverkefnum, s.s. í uppsetningu Leikfélags Akureyrar á Rocky Horror árið 2010 þar sem hún söng þar og dansaði.
Jónína útskrifaðist með B.Mus gráðu í söng frá tónlistardeild Listaháskóla Íslands síðastliðið vor og í haust mun hún hefja nám í söngleikja- og kvikmyndadeild New York Film Academy.

Um styrkarsjóð Halldórs Hansen

Halldór Hansen, barnalæknir ánafnaði Listaháskóla Íslands veglegt tónlistarsafn sitt og arfleiddi skólann að öllum eigum sínum þegar hann lést árið 2003. Meginmarkmið sjóðsins er að styrkja uppbyggingu og styðja við tónlistarsafn skólans. Auk þess veitir sjóðurinn árlega styrki til tónlistarnema sem hafa, að mati sjóðstjórnar, náð framúrskarandi árangri á sínu sviði. Styrktarsjóður Halldórs Hansen var formlega stofnaður 2004 og er þetta í tíunda sinn sem veitt eru verðlaun úr sjóðnum. Það er stjórn sjóðsins sem velur verðlaunahafa ár hvert.

Stjórn sjóðsins skipa Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands, Árni Tómas Ragnarsson, læknir, Mist Þorkelsdóttir, fyrrverandi deildarforseti tónlistardeildar Listaháskólans og Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarfræðingur.

Hægt er að lesa ávarp Fríðu Bjarkar Ingvarsdóttur, rektors, hér fyrir neðan.