Frá fagstjóra

Það koma nemendur úr ýmsum áttum í MA nám í tónsmíðum við LHÍ, margir þeirra erlendis frá. Bakgrunnur þeirra er ýmist raftónlist, rituð hljóðfæratónlist, hljóðfæraleikur, kvikmyndatónlist, útsetningar, tónlistarrannsóknir eða lagasmíðar. Námið er þannig byggt upp að það getur tekið á móti svo fjölbreyttum hóp. Þótt viðfangsefnin séu margvísleg er nefnilega margt sem sameinar þá sem skapa og rannsaka tónlist á meistarastigi.

Hér er mikil áhersla á gagnrýna og skapandi hugsun og hvatt til samtals á milli nemenda jafnt innan sem utan deildarinnar. Stuðlað er að því að meistaranemar skólans myndi samfélag hverjum og einum til stuðnings og hvatningar. Þannig felst talsverður styrkur í heildinni.

En skólinn veitir jafnframt hverjum og einum þau tæki sem hann þarfnast til að ná sem mestum árangri á sínu sérsviði. Nemandinn hefur aðgang að fjölbreyttri sérfræðilegri og listrænni þekkingu innan skólans en getur auk þess leitað til leiðbeinenda og ráðgjafa utan hans.

Námið einblínir ekki aðeins á fræðilegu hliðina, því nemandinn hefur jafnframt ýmsa möguleika á að þroska tónlistariðkun sína ef hann óskar þess, auk þess sem verkleg hlið tónsmíða kemur mikið við sögu í samtali og samstarfi við sérhæfða flytjendur nýrrar tónlistar.

Atli Ingólfsson