Anna Líndal, myndlistarmaður
Listrannsókn og myndlist

Rannsóknir í listum, í leikhúsi dansi eða sjónlistum eru
frábrugnar rannsóknum í akademísku fræðasamfélagi. En skilgreining á því
í hverju sá mismunur er fólginn hefur vafist fyrir fólki sl. 15 - 20
ár. Samræða um listrannsóknir er á byrjunarstigi á Íslandi, hér er
vettvangur í mótun.


Í erindinu verður fjallað um myndlist sem þróast í gegnum listferlið, practice-led research. Þe.
- þróast með með því að listaverkið verður til
- þróast þar sem spurningarnar og áskorunin verða til í vinnuferlinu
-
þar sem ferlið við að svara þessum spurningum eða þörfum er þróað í
gegnum gerð verksins og treyst er á þá aðferðarfræði sem notuð er í
faginu. Hér verður að hafa í huga að það er sami aðilinn sem vinnur
rannsóknarvinnuna og listsköpunina.


Í erindinu mun Anna segja frá eigin reynslu af listrannsóknum
og tengja það verkefnum sem eru í vinnslu. Einnig verður skoðað hvernig
þessi nýja skilgreining á rannsóknum innan listsköpunar hefur áhrif á
starfsumhverfi myndlistarmanna og valdastrúktúr innan fagsins. Velt
verður upp þeirri spurningu hvort listrannsóknir séu ógn eða nothæft
tæki við listsköpun.

Gunndís Ýr Finnbogadóttir, myndlistarmaður
Hlutverk lista, ástar og vinskaps

Erindinu er ætlað að gefa innsýn í vinnuferli sem varðar þátttöku og aðgengi í myndlist en
undanfarin
ár hef ég unnið listaverk sem miðast meðal annars að því að flækja
áhorfandann inní sköpunarferli verkanna. Nýverið hefur þetta vinnuferli
tekið talsverðum breytingum með listrannsókn sem ég vann við
Listkennsludeild Listaháskóla Íslands en með henni hefur áhugi minn á,
því sem ég kalla, miðlunarfræði aukist.
Á sýningarstöðum virðist
vera mikill aukinn áhugi, sem kannski er drifinn áfram að þörf eða nauð,
fyrir því að setja fræðslu í samhengi við myndlist og þá ekki aðeins
með aukinni fræðslu um myndlist heldur er annað hvort list sett í
samhengi við þekkingarmiðlun og öflun, kennslu og rannsóknarvinnu eða að
verkin sjálf eru byggð á þessum atriðum. List fær meira vægi sem
starfsgrein sem gefur aðgang að þekkingu og spurningum rétt eins og að í
gegnum hana séu spurningar skýraðar út. Þessi form leyfa okkur einnig
að hugsa um “lærdóm” sem getur átt sér stað í aðstæðum og á stöðum sem
ekki endilega eru ætlaðir eða tilskipaðir sem slíkir.

Sigurjón Baldur Hafsteinsson, dósent í safnafræði við HÍ
Vasabækur sem rannsóknargögn listamanns: Sigurður Guðmundsson „málari“ og arkitektúr

Sigurður Guðmundsson „málari“ var einn af forvígismönnum stofnunar
Forngripasafnsins árið 1863 og jafnframt einn fyrsti umsjónarmaður þess.
Sem líkur vann hann ötullega að því að afla þekkingar sem gátu borið
listfengi og menningarástandi Íslendinga vitni. Í þessu erindi verður
grennslast fyrir um þær rannsóknir sem hann vann að og gerir grein fyrir
í vasabókum sem varðveist hafa frá árunum 1856-1874. Sérstaklega verður
vikið að hlutverki vasabókana í að lýsa skoðunum hans á íslenskum
arkitektúr, en bækurnar eru sneysafullar af fjölbreyttu rissi og
teikningum sem hann hefur gert. Stuðst verður við vasabækur Sigurðar,
ásamt öðrum heimildum sem hann lét eftir sig, bréf og fleira. Helstu
niðurstöður eru þær að vasabækurnar hafa að geyma heimildir um íslenskan
arkitektúr sem eru ríkulegri en áður hefur verið talið.