Síðastliðinn mánuð hafa nememdur á öðru ári sviðshöfundabrautar verið að vinna með sviðsetningu hins persónulega undir leiðsögn Karls Ágústs Þorbergssonar. Farið var í sögulegt samhengi þessara sviðsetninga og ólíkar nálgunarleiðir verið skoðaðar, allt frá tilraunum gjörningalistamanna með líkama sinn um miðja síðustu öld til aðferða heimildarleikhúss samtímans. Enn fremur hafa þau skoðað hvaða vægi sviðsetning á persónulegum hversdegi hefur í samfélagi nútímans og hvernig botnlaus sjálfsmiðlun kallast á við ríkjandi samfélagsskipun og hugmyndafræði nýfrjálshyggju. 

Í námskeiðinu vinna nemendur verklega með þessa sviðsetningu og hafa tvær spurningar verið leiðandi: Hver talar og fyrir hvern er talað? Miðvikudag 13. maí og fimmtudag 14. maí kynna nemendur afrakstur vinnu sinnar með stuttum sýningum á verkum sínum. Sýningar hefjast kl 20 báða dagana og er hægt að skrá sig á skrifstofu sviðslistadeildar eða í gegnum midisvidslist [at] lhi.is

Athugið takmarkaðan sætafjölda.