Lettnesku tónlistarkonurnar Ilona Meija, flauta og Dzintra Erliha, píanó, leiðbeina nemendum tónlistardeildar LHÍ í opnum masterklössum sem fram fara miðvikudaginn 6. febrúar 2019 frá 17:00 - 19:30. Masterklassarnir verða haldnir í Skipholti 31, í húsnæði tónlistardeildar. Gestir hjartanlega velkomnir. Masterklassarnir eru haldnir í gegnum Erasmus-samstarf LHÍ og Tónlistaramademíu Jāzeps Vītols í Lettlandi.

Dzintra Erliha píanóleikari

Dzintra Erliha (f. 1981) nam píanóleik hjá Arnis Zandmanis við Tónlistarakademíu Jāzeps Vītols í Lettlandi. Hún lauk doktorsnámi árið 2013 en í doktorsritgerðinni fjallaði hún um ævisögulegt samhengi, stíl og túlkunarleiðir í kammertónlist Lūcija Garūta. 

Erliha hefur unnið til verðlauna í alþjóðlegum tónlistarkeppnum á borð við ROMA og Ludmila Knezkova-Hussey. Hún hefur komið fram á tónleikum víða í Lettlandi sem og í Brasilíu, Kanada, Íslandi, Frakklandi, Finnlandi, Pólandi, Úkraínu og víðar. 

Ilona Meija flautuleikari

Ilona Meija (f. 1971) nam flautuleik og kammertónlist hjá Vilnis Strautiņš og Gunta Sproģe við tónlistarakademíuna í Lettlandi og þykir einn fremsti flautuleikari Letta um þessar mundir. Hún hefur spilað sem flautuleikari með bæði Þjóðarsinfóníuhljómsveitinni og Þjóðaróperuhljómsveitinni í Lettlandi auk þess sem hún hefur spilað með Kammerhljóðfæraleikurunum í Riga (Rīgas Kamermūziķi) og gegnt stöðu fyrsta flautuleikara hjá Kammerhljómsveitinni í Riga frá árinu 2006.

Meija hefur komið fram sem einleikari með öllum fremstu kammersveitum og sinfóníuhljómsveitum í Lettlandi auk þess sem hún hefur spilað með Æskuhljómsveit Gustav Mahler (Gustav Mahler Jugendorchester) og Norrænu sinfóníuhljómsveitinni (Nordic Symphony Orchestra). Árið 2018 var Meija skipuð prófessor í flautuleik við Tónlistaramademíu Jāzeps Vītols í Lettlandi.

Plata og tónleikar í Norræna húsinu

Árið 2017 sendu þær stöllur frá sér plötuna Other Colours: Latvian Composers for Flute  sem hefur að geyma lettneska tónlist fyrir flautu og píanó en plötuna má nálgast á tónlistarveitunni Spotify. Þær munu koma fram á tónleikum í Norræna húsinu fimmtudaginn 7. febrúar 2019 kl. 20 og flytja tónlist eftir lettnesk tónskáld auk einleikstónlistar eftir Chopin og Skrjabin. Frítt er inn á þá tónleika og öll velkomin líkt og gildir um masterklassana í LHÍ.