Fegurðin! Spennandi umræðuefni í grunnskólum

 
Brynhildur Sigurðardóttir, heimspekingur, kennari og skólastjóri heldur opinn fyrirlestur í fyrirlestrarsal Listaháskólans að Laugarnesvegi 91. 
 
Í unglingaskólanum Garðaskóla hefur verið kennd heimspeki í mörg ár. Markmið kennslunnar er m.a. að gefa nemendum tækifæri til að þjálfa skapandi og gagnrýna hugsun í gegnum samræðu í hópi jafningja. Heimspekileg samræða byggir á lýðræðislegum gildum og hlúir að forvitni og þekkingarleit þeirra sem taka þátt í henni.
 
Af fjölmörgum viðfangsefnum sem nemendur Garðaskóla hafa tekið til umræðu hafa spurningar um list og fegurð verið sérlega gjöfular, skapað spennandi og skemmtilega samræðu í fjölbreyttum nemendahópum.
 
Í erindinu verður fjallað um nokkur þessara verkefna, framkvæmd þeirra og hvað nemendur og kennarar hafa lært af þeim. Gestum verður gefið tækifæri til að prófa eitt af verkefnunum.
 
Brynhildur Sigurðardóttir er grunnskólakennari með M.Ed. próf í heimspeki með börnum frá Montclair State University í Bandaríkjunum. Hún hefur kennt heimspeki og heimspekilega samræðu í Garðaskóla auk þess sem hún hefur haldið námskeið um heimspeki- og samræðukennslu fyrir kennara á öllum skólastigum.
 
Brynhildur starfar nú sem skólastjóri í Garðaskóla í Garðabæ. Meðal þess sem hún er stolt af í starfinu í Garðaskóla er fjölmenn heimspekideild skólans, en sjö kennarar taka þátt í heimspekikennslu við skólann í vetur.
 
Opnir fyrirlestrar í Laugarnesi á haustmisseri 2018 fara fram á vegum listkennsludeildar, myndlistardeildar og sviðslistadeildar. Öll velkomin á meðan húsrúm leyfir.