Kristín Valsdóttir, deildarforseti listkennsludeildar LHÍ ver doktorsritgerð sína Að verða listkennari – lærdómsferli listamanna þann 25. janúar kl. 13.00 í Hátíðarsal, aðalbyggingu Háskóla Íslands. 

 
Andmælendur eru dr. Rosie Perkins, Research Fellow í sviðslistum við Royal College of Music, London, og dr. Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
 
Leiðbeinandi var dr. Rineke Smilde, prófessor við Prince Claus Conservatoire í Groningen og University of Music and Performing Arts í Vínarborg, og meðleiðbeinandi var dr. Gestur Guðmundsson, prófessor við Menntavísindasvið.
 
Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. dr. Peter Alheit og dr. Peter Röbke.
 
Dr. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor og forseti Deildar menntunar og margbreytileika Menntavísindasviðs, stjórnar athöfninni sem er öllum opin.                                                                                                                                  
 

Að verða listkennari – lærdómsferli listamanna

 
Um verkefnið
 
Þessi rannsókn fjallar um nám og námsferli listamanna sem bæta við sig kennaranámi. Tilgangur rannsóknarinnar er að varpa ljósi á þær áskoranir sem mæta nemendum er koma inn á nýjan vettvang og hefja nám í kennslufræðum á meistarastigi. Markmið hennar er að þróa áfram meistaranám fyrir listmenn og koma betur á móts við þarfir þeirra í meistaranáminu, byggt á þeirra fyrri reynslu og menntun.
 
Fræðilegur grunnur byggir á kenningum Bourdieus (Bourdieu, 1977, 1984) um praxís, samspil einstaklings og vettvangs tengt auðmagni og gildismati þeirra hópa sem þeir eru þátttakendur í. Kannað er hvað listamenn sem hefja nám í kennslufræðum á meistarastigi takast á við er þeir fara á milli vettvanga; annars vegar út frá lífssögum þeirra en einnig þátttöku þeirra í námsmenningu í listkennslunáminu, hvernig þeir hafa áhrif á hana og móta.
 
Gögn rannsóknarinnar voru vikulegar dagbókarfærslur 22 fyrsta árs nemenda við listkennsludeild LHÍ ásamt lífsöguviðtölum við 15 listamenn, þar af 12 sem höfðu lokið meistaranámi og útskrifast sem listkennarar frá Listkennsludeild.
 
Meginniðurstöður eru þær að sú vegferð að tileinka sér nýja sjálfsmynd sem listkennari, meðfram því að vera listamaður, krefst tíma. Lenging kennaranáms hefur því töluvert að segja. Tíminn er þó aðeins einn þáttur í mótuninni þar sem námsmenning kennaranáms er sá vettvangur sem mótar það hvernig tíminn er nýttur. Námsmenning, sem leggur áherslu á ígrundun, samtal og samvinnu samfara fjölbreyttum vinnubrögðum og því að líta til fyrri reynslu og menntunar nemenda í skipulagi, leggur grunninn að því að listamenn tileinki sér nýjan vettvang og nýja sjálfsmynd sem listkennarar.
 
Gildi rannsóknarinnar felst fyrst og fremst í því að varpa ljósi á þær ögranir sem listamenn standa frammi fyrir er þeir hefja kennaranám á meistarastigi. Niðurstöður hennar má nýta við þróun og uppbyggingu frekara náms á meistara- og doktorsstigi fyrir listamenn á Íslandi. Niðurstöðurnar geta nýst til að skoða og greina uppbyggingu kennaranáms á Íslandi.
 
 
Um doktorsefnið
 
Kristín Valsdóttir lauk B.Ed. tónmenntakennarapófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1985 og kenndi við Vesturbæjarskóla 1985–1990. Hún lauk tveggja ára framhaldsnámi í tónlistar- og danskennslu árið 1992 frá Orff Institut, tónlistarháskólanum Mozarteum í Salzburg. Eftir heimkomu starfaði hún sem tónmenntakennari og kórstjóri við Vesturbæjarskóla og við stundakennslu og kórstjórn við Kennaraháskóla íslands, auk kennslu við tónmenntakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík. Hún sat í stjórn Tónmenntakennarafélags Íslands í ellefu ár, með hléum, á árunum 1985-2004, og í stjórn Tónlist fyrir alla og situr nú í stjórn Orff tónmennta á Íslandi.
 
Kristín hefur haldið fjölmörg námskeið fyrir kennara og almenning, gefið út námsefni og haustið 2018 kom út hjá Háskólaútgáfunni bókin Framtíðarmúsík: Rannsóknir og nýjar leiðir í tónlistarmenntun í hennar ritstjórn. Kristín stofnaði og stjórnaði Unglingakór Dómkirkjunnar 2001–2007 og hefur unnið mikið að barnakórastarfi og stjórnað kórum við ýmis tækifæri. Frá árinu 2003 starfaði hún að mestu við kennslu og stjórnunarstörf á háskólastigi. Sem kórstjóri og kennari við sviðlistadeild LHÍ frá 1998–2005, stundakennari við tónlistardeild og í kennslufræði við sama skóla, stundakennari með hléum og síðar aðjúnkt við Kennaraháskóla Íslands frá 1992 til ársloka 2008. 
 
Árið 2006 lauk hún meistaragráðu frá Kennaraháskóla Íslands og í árslok 2008 var hún ráðin í stöðu deildarforseta nýrrar deildar; listkennsludeildar Listaháskóla Íslands, sem hún gegnir enn í dag. Kristín er gift Eiríki Hjálmarssyni, börnin eru fjögur og barnabörnin þrjú.
 
 
 
Einnig er vaking athygli á opnum fyrirlestri sem prófessor Peter Alheit, meðlimur í doktorsnefnd Kristínar, heldur í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í Stakkahlíð, fimmtudaginn 24. janúar kl. 16. 
 
„Símenntun – hugtak sem miðar að breytingum“
 
Dr. dr. Peter Alheit er í fremstu röð alþjóðlegra menntunarfræðinga, og hefur unnið að rannsóknum og þróun á sviði símenntunar í Evrópu, einkum í Þýskalandi, Bretlandi, Danmörku og í evrópsku samstarfi. Rannsóknir hans beina athyglinni að því símenntun tvinnar saman lífssögu einstaklinga og samfélagsbreytingar.
 
Fyrirlesturinn er á ensku og ber heitið „The challenges of the lifelong learning concept“.