Stefnumót nemenda í MA Hönnun við Karl Aspelund og Michael Morris

Nemendur og kennarar í MA námi í hönnun (MA Design: Explorations and Translations) við Listaháskóla Íslands standa fyrir viðburðinum SkurðPunktur á HönnunarMars 2019. Viðburðurinn fer fram í yfirgefnu verslunarhúsnæði Víðis, á Sólvallagötu 79 frá 26. mars – 31. mars.
SkurðPunktur er vettvangur fyrir heitar umræður, gagnrýni, andstæð sjónarmið, mismun, misfellur, annarleika, fjölbreytileika og margröddun, sem snúast um hönnun í samtímanum, erindi, ábyrgð og hlutverk hönnuða í dag.
Sýningarsjóri er Thomas Pausz, lektor við hönnunar- og arkitektúrdeild LHI.
Föstudaginn 29. mars klukkan 13:30 munu hönnuðurinn og mannfræðingurinn Karl Aspelund og arkitektinn Michael Morris mæta nemendum í MA hönnun á SkurðPunkti, Aspelund og Morris koma á vegum Fulbright og Bandaríska Sendiráðsins. Þar verður spáð í spilin varðandi frmtíð hönnunar og stöðu hönnuðarins í tengslum við jörðina og geiminn. Garðar Eyjólfsson fagstjóri meistaranáms í hönnun við Listaháskóla Íslands mun stjórna umræðunni, viðburðurinn er öllum opinn og ókeypis inn.
 
morris_uncropped_b.jpg
 
Michael Morris
Michael Morris er arkitekt, fæddur 1962 í London. Hann stofnaði ásamt eiginkonu sinni heitinni og samstarfsfélaga Yoshiko Sato, arkitektúrstofuna Morris Sato Studio í New York árið 1996.
Samhliða því að vinna að eigin verkefnum hefur Morris sinnt kennslu og verið í hópi starfsmanna í Cooper Union, Parsons og Pratt Institute.
Morris er meðstofnandi Space Exploration Architecture (SEARch+) og hefur meðal annars fengið styrki frá NASA til að hanna möguleg hýbíli á plánetunni Mars.
 
ka_headshot_feb_26_2019.jpg
 
Karl Aspelund
Karl Aspelund er dósent í Hönnun við Háskólann á Rhode Island og kennir auk þess á námsbraut í þjóðfærði og safnafræði við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Hann starfar sjálfur sem hönnuður og mannfræðingur og lauk doktorsgráðu í mannfræði og efnismenningu árið 2011 frá Háskólanum í Boston.
Rannsóknir hans snúast að miklu um efnismenningu og sjálfsmyndasköpun bæði í einstaklingssamhengi og útfrá þjóðum, í kjölfarið hefur hann skoðað hvers konar hönnunarþarfir og takmarkanir í textíl þarf að vinna með þegar langtíma flug í geimnum á sér stað.