Hinn þekkti danski arkitekt Jan Gehl heldur fyrirlestur í Gamla bíói fimmtudaginn 15. nóvember nk.
kl. 17:00
í tilefni af útgáfu íslenskrar þýðingar bókarinnar Mannlíf milli húsa (Livet mellem husene).

Í fyrirlestrinum setur Jan Gehl viðfangsefni bókarinnar í samhengi við þróun borga og byggða í samtímanum. Einnig fjallar hann um aðferðarfræðina sem bókin sprettur úr og áhrif hennar víða um heim.
 
Í meira en hálfa öld hefur Gehl beint sjónum að hversdagslífi og athöfnum fólks í sameiginlegum borgarrýmum. Með rannsóknum á samspili milli athafna og útirýma hefur hann komist nær lögmáli og forsendum mannlífs milli húsa. Hann hefur miðlað þekkingu sinni gegnum kennslu og ráðgjöf í fjölmörgum borgum og verið áhrifavaldur í þróun borga víða um heim.
 
Bókin Mannlíf milli húsa kom upphaflega út árið 1971 í Kaupmannahöfn og er löngu orðið sígilt rit í arkitektúr og umhverfis- og skipulagsfræðum. Þetta var brautryðjandi verk sem varpaði ljósi á mannlíf hverfa, bæja og borga sem grundvallandi þátt í arkitektúr og skipulagi. Frá fyrstu útgáfu hefur bókin verið gefin út sjö sinnum á frummálinu. Hún hefur verið þýdd á tæplega fjörutíu tungumál en kemur nú út í sinni fyrstu íslensku þýðingu. Með bókinni, sem í myndum og texta dregur fram forsendur og gæði mannlífs borga og byggða, kvað Jan Gehl sér hljóðs í hópi þeirra sem voru gagnrýnir á nálgun módernismans í skipulagi borga. Nálgun sem hafði ýtt undir að fjarlægja fólk frá götunum og um leið frá hvert öðru í ljósi þess að götur og almenningsrými eru mikilvæg félags- og samskiptarými.
 
Þegar Mannlíf milli húsa kom upphaflega út fól hún í sér uppgjör við kaldranalegar borgir og íbúðahverfi eftirstríðsáranna. Bókin fól einnig í sér skilaboð um að mannlíf milli húsa væri mikilvæg vídd í arkitektúr og skipulagi, sem nálgast þyrfti skipulega, faglega og fræðilega og þá ekki síst út frá félags- og sálfræðilegum þáttum, með áherslu á viðmót, mælikvarða og áhrif borgarumhverfisins á samskipti og samneyti fólks.
 
Nú, tæpum fimmtíu árum eftir að bókin kom fyrst út, á hún ennþá fullt erindi eins og Jan Gehl kemst að orði í formála sjöundu dönsku útgáfu bókarinnar frá árinu 2017: „Undanfarnir áratugir hafa sýnt svo ekki verður um villst að viðleitnin til þess að styrkja mannlíf í borgum og byggðum er enn ofarlega á baugi. Samfélagsþróun og allir heimsins rafrænu miðlar hafa ekki dregið úr mikilvægi þess að fólk komi saman, nema síður sé.“
 
Mannlíf milli húsa er grundvallarrit í arkitektúr og skipulagi og skyldulesning í skólum víða um heim. Með útgáfu Mannlífs milli húsa á íslensku eflist flóra sígildra arkitektabókmennta á íslensku og stuðlað er að því að tengja hugtakaheim í arkitektúr og skipulagi við umhverfi og umræðu á Íslandi. Markmið með þýðingu og útgáfu bókarinnar á íslensku er ekki hvað síst að leggja á vogarskálarnar í því stóra verkefni sem er að styrkja grundvöll fyrir faglega og uppbyggilega umræðu um arkitektúr og skipulag á Íslandi. Í því ljósi er löngu tímabært að gera þessa bók Jans Gehl aðgengilega á íslensku, en markmið höfundar á sínum tíma var að gera þessa handhægu umræðubók aðgengilega fyrir sem flesta, fagfólk jafnt sem almenning.
 
Þýðandi bókarinnar er Steinunn Stefánsdóttir blaðamaður og þýðandi. Anna María Bogadóttir arkitekt, menningarfræðingur og lektor við Listaháskóla Íslands ritstýrði og ritar eftirmála bókarinnar. Útgefandi er ÚRBANISTAN, sem stendur einnig að fyrirlestri Jans Gehl í Gamla bíói í samstarfi við Reykjavíkurborg, Skipulagsstofnun, Listaháskóla Íslands, Klasa, Icelandair Hotels, Arkitektafélag Íslands, Félag íslenskra landslagsarkitekta, SAMARK og Hönnunarmiðstöð.
 
 
NÁNAR UM HÖFUNDINN
 
Jan Gehl Fæddur 1936. Arkitekt og prófessor við Arkitektaskóla Listaakademíunnar í Kaupmannahöfn. Stofnandi Gehl Architects ásamt Helle Søholt 2000. Meðal bóka höfundar eru Bedre byrum 1991, Byens rum – byens liv 1996, Nye byrum 2001 og Det nye byliv 2006. Gestaprófessor og ráðgjafi við háskólana í Edinborg, Vilníus, Ósló, Toronto, Calgary, Melbourne, Perth, Berkeley, San José og Guadalajara og hefur sinnt verkefnum fyrir Kaupmannahöfn, Ósló, Stokkhólm, Edinborg, Höfðaborg, Melbourne, Sydney, London, New York og Moskvu. Hefur hlotið verðlaunin Sir Patricks Abercrombie Prize frá The International Union of Architects og heiðursmerki C.F. Hansen. Heiðursfélagi í arkitektafélögum Danmerkur, Englands, Skotlands, Bandaríkjanna og Kanada.