Hrefna Sigurðardóttir grafískur hönnuður heldur fyrirlestur þriðjudaginn 27. apríl klukkan 12:10 á Microsoft Teams. Fyrirlesturinn er hluti af Sneiðmynd, fyrirlestrarseríu hönnunardeildar og arkitektúrdeildar LHÍ. Athugið að fyrirlesturinn fer fram á íslensku, smellið á þennan link til að komast inná fyrirlesturinn: https://bit.ly/2PgoDw9
 
Hrefna er sjálfstætt starfandi grafískur hönnuður en hún fæst við prent, vef, vídeó og kennslu. Hún útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2012 og með MFA frá Yale School of Art árið 2018. Hrefna hefur í gegnum árin tekið að sér verkefni fyrir stofnanir og fólk tengt útgáfu, tónlist, hönnun og myndlist bæði í Reykjavík og í New York.
 
Í dag er Hrefna staðsett í Reykjavík þar sem hún vinnur bæði að eigin verkefnum og fyrir aðra. Í fyrirlestri sínum „Einhverskonar ummerki” fer Hrefna yfir nokkur af nýlegum verkefnum og ræðir um það hvernig áhugasvið hennar snertir m.a. skrásetningu, miðla og þær takmarkanir sem þar kunna að liggja. Verk hennar má sjá á hrefna-sigurdardottir.net.
 

 

 
SNEIÐMYND
Öflugt rannsóknarstarf kennara við arkitektúrdeild og hönnunardeild er undirstaða þekkingarsköpunar, hugmyndafræðilegrar endurnýjunar og listrænnar nálgunar sem miðlað er til nemenda í gegnum kennslu og til samfélagsins með þátttöku í ýmsum verkefnum á innlendum og alþjóðlegum vettvangi.
Í fyrirlestraröðinni Sneiðmynd kynna kennarar hönnunardeildar og arkitektúrdeildar eigin rannsóknir og listsköpun og ræða tengsl þeirra við kennslu í deildinni.
Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og er fagfólk, nemendur og áhugafólk um hönnun og arkitektúr hvatt til að mæta.
 
Dagskrá Sneiðmyndar 2021:
 
Miðvikudagur 17. mars 2021
Dagur Eggertsson, arkitekt og gestaprófessor við arkitektúrdeild
 
Þriðjudagur 12. apríl 2021
Helga Lára Halldórsdóttir, fatahönnuður og stundakennari í fatahönnun
 
Þriðjudagur 20. apríl 2021
Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt og stundakennari við meistaranám í hönnun
 
Þriðjudagur 27. apríl 2021
Hrefna Sigurðardóttir, grafískur hönnuður og stundakennari í grafískri hönnun
 
Þriðjudagur 4. maí 2021
Johanna Seelemann, vöruhönnuður og aðjúnkt í vöruhönnun