Bátur, setning, þriðjudagur // BA myndlistarnemar á Seyðisfirði

Verið velkomin á sýningaropnun myndlistarnema LHÍ í Skaftfelli á föstudaginn 26. janúar klukkan 17.00 til 20.00 í galleríi Skaftfells.
 
Sýningin 'Bátur, setning, þriðjudagur' er afrakstur tveggja vikna dvöl myndlistarnema úr Listaháskóla Íslands á Seyðisfirði þar sem hópur þriðja árs nema hafa unnið hörðum höndum undir leiðsögn Gunnhildar Hauksdóttur myndlistamanns, sem dvaldi sjálf á Seyðisfirði árið 2001 ásamt samnemendum sínum í LHÍ þegar sambærileg vinnustofudvöl var haldinn í fyrsta sinn undir handleiðslu Björns Roth.

Vinnustofa í borginni

Við dvöldum í húsum sem hafa færst um set og hvert skráargat á sína sérstöðu. Jörðin snýst um möndul sinn einu sinni á sólarhring en við … já við og við búum yfir djúpsálarlegum tíma. Eins skips skaði verður að annarra manna listasmíði og viðinn hríðrekur að landi. Milljón jarðir komast fyrir í sólinni og engin manneskja hefur setið á sama stað. Héðan úr staðgnóttinni glittir í staðfestur – héðan er alls að vænta.