Ómkvörnin

Ómkvörnin er uppskeruhátíð tónlistardeildar Listaháskóla Íslands. Þar eru flutt ný verk eftir tónsmíðanemendur skólans af hljóðfæraleikurum skólans sem og tónlistarfólki annarsstaðar frá.

Hátíðin er í Kaldalón sal, stendur yfir dagana 22. – 23. maí og samanstendur af þrennum tónleikum; kl. 18:00 og 20:30 fyrri daginn og kl. 18:00 seinni daginn.

Listaháskóli Íslands hvetur alla þá sem hafa áhuga á nýrri íslenskri samtímatónlist að mæta á hátíðina.

Ókeypis aðgangur er á Ómkvörnina.

Dagskrá:

Útskriftartónleikar meistaranema í tónsmíðum

Útskriftarverk Atla K. Petersen og Björns Pálma Pálmasonar úr meistaranámi í tónsmíðum verða flutt af Caput, undir stjórn Guðna Franzsonar, í Sölvhóli, föstudaginn 19. Maí kl. 20.

Atli K. Petersen lauk prófi frá Blásarakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1988, þar sem kennarar hans voru m.a. Kjartan Óskarsson og Oddur Björnsson. Atli hefur stundað kennslu og unnið að tónsmíðum og útsetningum í Færeyjum síðan hann lauk námi.

Leiðbeinendur Atla í tónsmíðum undanfarin tvö ár hafa verið Úlfar I. Haraldsson og Áskell Másson.

Þar sem tíminn dvelur

Verkið dregur nafn sitt af samnefndu ljóði eftir bróður Rögnvaldar, Þorvald S. Helgason, og ber það heitið þar sem tíminn dvelur. Verkið er samið fyrir fjögur tréblásturshljóðfæri og fjórar raddir; flautu, óbó, klarinett, fagott, tvær sóprönur, mezzósópran og bassa. Það sem þessi hljóðfæri eiga sameiginlegt með söngvurunum er að þeim er stjórnað með öndun og loftstraumi. Rögnvaldur vildi leggja áherslu á það í verkinu og lét því línur og lengd tóna stjórnast af eðlilegum andardrætti auk þess að hafa styrkleikabreytingar náttúrulegar með tilliti til andardráttar.

Útskriftartónleikar: Friðrik Margrétar-Guðmundsson

Skipholt er byggt á textum eftir Adolf Smára Unnarsson, Birni Jón Sigurðsson, Matthías Tryggva Haraldsson og Stefán Ingvar Vigfússon sem voru skrifaðir sérstaklega fyrir verkið. Skipholt reynir að svara spurningum um sitt eigið form. Þáttakendur reyna að átta sig á eigin formfestu og öðrum formum sem fólk á það til að festa sig í. Er hringurinn æðsta formið eða eru það áformin um að komast í form? Form eins og formalín og frauðplast? Ég veit það ekki en ég veit að það er glatað að vera sagt upp í Skipholti.

Útskriftartónleikar: Þorsteinn G. Friðriksson

Síðustu misseri hef ég verið heltekinn af endurómum og vissi strax þegar ég byrjaði á útskriftarverkinu mínu að það myndi vera haldið í kirkju til að geta fengið fallegann og langlifandi hljómburð. Kórinn sem hljóðfæri heillar mig einnig mjög mikið því að hann getur framkallað svo falleg hljóð en mannsröddin er líka elsta og nátengdasta hljóðfæri manneskjunnar.

Friðrik Margrétar-Guðmundsson sýndi mér ljóð Valgerðar Þóroddsdóttur og ég vissi strax þegar ég las bókina 'Það sem áður var skógur' að ég myndi byggja verkið mitt á þeim textum

Útskriftartónleikar: Gylfi Guðjohnssen

Allfá eru þau verkin sem samin eru fyrir gítar, tvær fiðlur, víólu og selló, hljóðfærasamsetning sem nefnist einnig „gítarkvintett“; tónlistarsagan ber vott um níu gítarkvintetta eftir Luigi Boccherini og aðeins einn eftir Mauro Giuliani, þó einhverja aðra væri hægt að nefna.
Það ætti alls ekki að túlka sjaldgæfni formsins sem vitnisburð fyrir ófegurð þess, þvert á móti hefur það upp á marga sérstaka liti að bjóða. Í útskriftarverkinu verður kafað inn í tímavídd tónlistarinnar og kannað hugtakið um púls frá mismunandi sjónarhornum.

Útskriftartónleikar: Kjartan Holm

Læri þitt lekur er verk fyrir 6 strengi og slagverk. Í verkinu er farið með hlustandann í gegnum nokkur augnablik - sem vara þó mis lengi - þar sem öll hljóðfæri gegna jafn mikilvægu hlutverki og vinna sem heild að koma hlustandanum frá A til B með ómstríðum og massakenndum heildarhljómi. Verkið snýst um að vera hluti af ástandi og leyfa ástandinu að fara með sig á nýjar slóðir. Mælst er með að hlustendur komi sér vel fyrir í sætunum sínum og leyfi ferðalaginu að taka af stað. Hljómsveitin er undir stýri og ekkert til fyrirstöðu annað en að sitja bara og njóta ferðarinnar.

Útskriftartónleikar: Arna Margrét Jónsdóttir

Í dag breyttist borgin: Útskriftarhátíð LHÍ

Tónverkið „Í dag breyttist borgin“ er sprottið úr hugrenningu um heimsmynd. Það er samansett úr nokkrum kórverkum sem bundin eru saman í eina heild með strengjakvartett. Texti við verkið er saminn af Örnu Margréti.

Flytjendur:
Kórinn Hljómeyki undir stjórn Mörtu G. Halldórsdóttur
Aldís Bergsveinsdóttir – fiðla
Steina Kristín Ingólfsdóttir – víóla
Þórdís Gerður Jónsdóttir – selló
Ingvi Rafn Björgvinsson – kontrabassi

Útskriftartónleikar: Guðmundur Óli Norland

Guðmundur Óli Norland er sannkallaður hljóðunnandi. Hann vinnur með hljóðið á sköpunarglaðan hátt og kannar eiginleika þess í tónsköpun sinni. Guðmundur hefur fengist við og kynnst tónlist meginpart ævi sinnar; stundað píanóleik og fengist við ýmis konar tónsmíðar allt frá unglingsaldri. Áferð, hljóðblöndun, hljómræna og dínamík rata inn í tónlist Guðmundar, hvort sem um hljóðfæra- eða raftónlist er að ræða. Í útskriftarverkinu hans frá tónsmíðadeild Listaháskóla Íslands verður þetta haft að leiðarljósi.