Hlutdeild nemenda í einstaklingsmiðuðu námi í grunnskólum 

 

 
Diðrik Jón Kristófersson hefur komið víða við og er menntaður grafískur hönnuður, myndskreytir, myndlistarmaður og bardagalistamaður. Hann unir sér við flestallt sem kemur að sköpun hverskonar, en einblínir þó – oftast nær –  á myndverk og tónlistarsköpun í formi öfgaþungarokks þegar hann gleymir sér ekki í sálar- og félagsfræðilegum þáttum heimspeki og þekkingarfræði.
 
Í upphafi náms við Listkennsludeild Listaháskóla Íslands varð Diðrik fljótt hugfanginn af heimspekilegum hugmyndum um lýðræði, réttlæti og sjálfræði einstaklingsins í nútíma samfélagi.
 
Trú hans á að samfélagið skapist í skólunum krafðist þess að rýnt yrði, með nær marxísku auga gagnrýnnar hugmynda- og uppeldisfræði, í samband allsráðandi skipulags menntunar og stöðu nemandans.
 
Verkefnið snérist um nemandann sem einstakling og hvernig honum tekst að takast á við þá ábyrgð sem fylgir því frelsi að fá að ráða eigin starfsháttum og valkostum við skapandi atferli.
 
7 vikna rannsóknartímabil átti sér stað í Garðaskóla í Garðabæ að vori, 2017 og voru tíu nemendur prófaðir og hvattir til að mynda eigin stefnu í stafrænni myndmenntakennslu. Þess á milli var einblínt á þægilegt og samræðukennt andrúmsloft þar sem byggt var á framúrstefnulegum hugmyndum um þekkingarsöfnun og miðlun.
 
Samansöfnuð gögn um árangur og álit nemenda voru að lokum færð í samhengi við starfendarannsóknir höfundar, heimildasöfnun og viðtöl við sérfræðinga þar sem leitast var við að geta dregið mynd af nemendamiðuðu námi og möguleikum nemenda til þátttöku í þróun þess og innleiðingu.
 
Niðurstöður voru í anda almennra rannsókna – hérlendis sem erlendis – og kom á daginn að nemendur virðast yfirleitt lítið koma við sögu þegar unnið er að því að tryggja hlutdeild þeirra og valfrelsi til persónulegra athafna í námi.

 

Um verkefnið

 
Ritgerð þessi til 20 eininga M.Art.Ed gráðu í Listkennslu við Listaháskóla Íslands er að hluta til byggð sem rannsóknarverkefni í þeim tilgangi að kynnast nánar framvindu nemendamiðaðs náms í grunnskólum á Íslandi. Hér verður hugað að sögu, þróun og framtíðarsýn slíkra aðferða og kenninga í námi almennt; þá til samanburðar við ríkjandi kennsluhætti eins og þeir þekkjast víðast hvar hérlendis.
 
Haldið var á slóðir Garðaskóla í Garðabæ þar sem nemendamiðaðar aðferðir voru prófaðar í stafrænni myndmenntakennslu níunda bekks á sjö vikna skeiði vorannar, 2017. Einnig var haldið utan um niðurstöður slíkra kennsluaðferða við störf höfundar sem grunnskólakennara við Reykjavík International School í Grafarvogi, Reykjavík, ásamt svipuðum tilraunum við ýmisskonar kennsluverkefni í Meistaranámi hans við Listaháskóla Íslands á árunum 2015/2016.
 
Viðtöl við reynda sérfræðinga voru jafnframt tekin á tímabilinu 2015/2017 og færð í samhengi við margvíslegar heimildir ásamt niðurstöðum úr starfendarannsókn höfundar við ofangreindar rannsóknir og störf. Tilgangurinn var að mynda frekari hugmyndir um áhrif nemendamiðaðra kennsluaðferða á námsframvindu og líðan nemenda í grunnskólum, en – jafnframt því – komast að niðurstöðu um hvort velferð nemandans sé í raun borgið með nemendamiðuðu námi og þeim breytingum sem innleiðing slíkra aðferða hefur í för með sér.
 
En þrátt fyrir aukin tilþrif í starfsháttum og umhverfi virðist skorta beinar tengingar við nemendur sjálfa sem hingað til hafa lítið fengið að athafna sig við skipulag eða breytingar á námi og/eða námsumhverfi.
 
 
nekronart [at] gmail.com
Leiðbeinandi: Ingimar Ólafsson Waage
2017