„Mig langar bara svo að þú verðir eins og fiskur í vatni!”

Endurskoðun Aðalnámskrár tónlistarskóla og framtíðarsýn um þróun tónlistarnáms í hafsjó möguleika

Einhvern tíma fyrir löngu síðan þegar ég var unglingur í píanótíma sagði kennarinn minn við mig: „Mig langar bara svo að þú verðir eins og fiskur í vatni!“ Ég man hvernig hún horfði beint á mig og ég fann að henni var alvara. Hún óskaði þess raunverulega að ég næði svo góðum tökum á viðfangsefninu að ég yrði örugg í eigin skinni, sjálfstæð og frjáls – svona eins og fiskur í vatni. 

Á ráðstefnunni Tónlist er fyrir alla sem haldin var haustið 2022 ræddu ríflega fjögur hundruð þátttakendur fjórar lykilspurningar í hópaumræðum. Spurningarnar snerust meðal annars um það hvernig stuðla megi að því að tónlistarnám verði aðgengilegt öllum börnum og hvernig árangur í tónlistarnámi er skilgreindur. Nokkrum vikum seinna hófst formleg undirbúningsvinna vegna endurskoðunar Aðalnámskrár tónlistarskólanna, en gildandi aðalnámskrá kom út árið 2000 og hefur fram að þessum tímapunkti ekki verið endurskoðuð. 

Svör þátttakenda sem ég þemagreindi og fjalla um hér fela í sér vísbendingar sem gætu gagnast við þá stefnumótun sem á sér nú stað við endurskoðun Aðalnámskrár tónlistarskólanna. 

Í umræðunum kom fram mikilvægi þess að standa vörð um það sem vel hefur reynst en um leið hafa hugrekki til þess að feta nýjar slóðir. Okkur ber að finna leiðir til þess að nemendur tengi við viðfangsefni sín, að hlusta eftir áhuga þeirra og veita þeim sem fjölbreyttust tækifæri til þess að prófa sig áfram, sýna forvitni, frumkvæði og vera sjálfstæð í því sem þau gera. Þannig stuðlum við að því að þau fái að verða eins og fiskar í vatni.

Það er mikilvægt fyrir kennara að finna þann stuðning sem aðalnámskrá getur vissulega veitt. En stuðninginn er ekki síður – og kannski jafnvel fyrst og fremst – að finna í öflugu samtali, tengingu og raunverulegu samstarfi þeirra sem vilja veg tónlistar sem mestan í samfélaginu, fyrir okkur öll.

Image preview