Í mínum augum á sér stað myndræn hliðstæða þegar ég virði fyrir mér grjót. Ég sé svipa til áferðar á holdi, hráu holdi. Ég get ekki útskýrt þetta, þetta bara gerist. Ég ber kennsl á áferð sem er þarna inn á milli. Eftirlætisskilgreining mín á hliðstæðu er frá Michel Foucault sem sagði að hún væri „spenna sem aldrei slaknar á milli tveggja brúna sitthvorumegin við djúpan dal,“ sem skapar „dásamleg átök líkinda.“ Síðan ég fór að sjá hliðstæður milli holds og grjóts hef ég stöðugt reynt að finna leið til að samþætta þessar tvær áferðir, til að skapa minn eigin heim á grundvelli raunveruleikans. Ég finn samhengi með því að brjóta niður ólíkindi og útgiska, alhæfa. Líkaminn sem landslag og landslag sem líkami. 

Þetta snýst allt um ljóð. 

Það er engin birta inni í líkama okkar, allt lifir þar í myrkrinu. Fyrir mér er það að fara inn í mannslíkamann eins og að fara inn í ókunnugan helli, maður þarf að búa yfir sömu lönguninni, sama hugrekkinu og áræðninni. Maður getur villst, öll kennileiti eru á reiki og maður veit ekki hvort líkaminn verði fyrir hnjaski … maður verður könnuður.  

Inni í líkamanum uppgötvar maður líffærin, slímug og litrík, formlaus. Þau eru öll frekar viðbjóðsleg, ekki satt ? Þau eru auðvirðuleg, manni verður flökurt bara við að sjá þau. Svo ekki sé nú talað um þarmana og saurframleiðsluna … Auðvirðulegir hlutir eru fráhrindandi og við viljum ekki fyrir nokkra muni að þeir séu hluti af lífi okkar, jafnvel þótt hjá því verði ekki komist. Auðvirðingin er að afneita sjálfu lífsferlinu. 

Grjót og fjöll eru ekki auðvirðuleg, þau eru sannarlega formlaus en fögur, virðuleg, ekki eins og hráki eða bris.  

Hlutir úr lífrænum vefjum og steinefnum eru hvort um sig náttúrulegir. 

 

Ég tekst á við þessar tvær náttúrulegu tegundir hluta og á sama tíma eiga þær til að renna saman. Þessi sería stafrænna ljósmynda, Tilraun við faðmlagið nr. 25, var tekin efst á Eldfelli í Heimaey. Þetta eru nærmyndir af kjötbitum og líffærum og hraungrjóti. Þessir hlutir eru nokkuð stórir og til þess ætlaðir  að skapa líkamlegt samband við áhorfandann. Með því að glata raunverulegum hlutföllum myndarinnar verður upplifunin á náttúrulegu hlutunum önnur, nýtt orðasafn forma og áferða verður til. Þetta er leið til að veita nýtt sjónarhorn á myndrænan raunveruleika sem ég hef skapað.  

Ég vinn líka með keramik, efni sem ég hef sterka tengingu við. Þar sem að keramikið er gert úr jarðvegi er samsetning þess bæði úr lífrænum efnum og steinefnum. Jafnvel þótt ég skapi ímyndaða margræða náttúrulega gripi í keramik finnst mér þeir raunverulegir á vissan hátt vegna sambandsins sem ég á við efnið. 

Höldum af stað í mikla reisu í gegn um munninn á okkur, tjáningarríkt eldfjall djúpt inni í innra konungdæmið út til allt umlykjandi landslagsins. Göngum inn í hið auðvirðulega sem við erum gerð úr, sameinumst formleysinu, stingum okkur í straum blóðfljótsins og látum berast á braut.