Sláðu inn leitarorð
Bernharð Þórsson
Raddbönd
Hljóð hefur áhrif á líf okkar á hverjum degi, frá hljóðinu í vekjaraklukkunni til hljóðsins í öndun okkar þegar við leggjumst á koddan auk allra annarra hljóða sem við heyrum yfir daginn. Hljóð er stór hluti af okkar dagsdaglega lífi. Það kemur fram í allskyns formum og hefur áhrif á tilfinningar okkar og skap. Hljóðbylgjur fljúga allt í kringum okkur en þær eru okkur ósýnilegar. Oftast eru það eyrun sem taka á móti hljóðbylgjum en þó finnum við fyrir ákveðnum tíðnum í líkamanum. Það er hægt að hugsa sér að hljóð sé ósýnilegur skúlptúr í loftinu. Ef við ímyndum okkur hljóðskúlptúr sem myndast í loftinu getur hann verið jafn fallegur og hljóðið sjálft. Fallegt tónverk býr til fallegan skúlptur, þar sem bylgjurnar ferðast um í samhverfu sem hafa áhrif á hvor aðra og mynda ný form með hverri nótu. Umhverfi þrívíðs skúlptúrs getur haft áhrif á hann á sama hátt hljómburður í rými getur haft áhrif á hljóð. Hljóðið sem þeysist um og ómar í rýminu rís í sínar hæðstu hæðir og fellur að lokum í þögn, við getum ímyndað okkur skúlptúra sem rísa og falla í rýminu í samræmi við hljóðið sem við heyrum.