Sláðu inn leitarorð
Berglind Hreiðarsdóttir
Berglind Hreiðarsdóttir
www.berglindhreidarsdottir.com
Snerting skapast við hlut sem við köllum ljósmynd og ég reyni að nálgast hana út frá því ferli sem býr að baki tilurð hennar. Sambandið við ljósmyndina er flókið og ég hef tilhneigingu til að tortryggja hana.
Vatnið er formlaust og tekur á sig mynd eftir umhverfi sínu. Mér finnst eins og líkt sé farið með ljósmyndina. Þegar ótal myndir af öllum stærðum og gerðum flæða allt í kringum okkur, greinum við sjaldan eina tiltekna leifturmynd frá öllum hinum. Ljósmyndin er líka haldreipi okkar; leið til að muna augnablik, hreyfingu, tímann, ástandið og manneskjur sem við tengjumst. Stuðningur þegar við þurfum að horfast í augu við missi og hverfulleika. Líkt og húðin dregur í sig vatn við snertingu, dregur minnið okkar í sig ljósmyndirnar og mótar hugsun okkar. En vatnið holar steininn, umbreytir honum og ljósmyndaprentið dofnar og við sækjum mismunandi upplýsingar frá þeim. Ég vísa í ferli sem hefur átt sér stað og reyni að tala um ljósmynd án þess að hafa hana til staðar. Það verður til þess að umræða um ljósmyndina sem mótun á minningum eða afl til breytingar getur átt sér stað án þess að ræða tiltekin viðfangsefni.
Í vissum skilningi er ég að vinna með þessi ósýnilegu öfl, leyfa þeim að stýra verkinu, hugmyndina um að snerta ljósmynd og að leyfa ljósmyndum að snerta okkur. Að vera fyrir utan myndheiminn en lifa í gegnum hann. Ég skoða mismunandi sjónarhorn á ljósmynd en við sjáum það sem við viljum sjá og sýnum öðrum. Þar af leiðandi mótar samfélagslegt minni okkar.