Bára Bjarnadóttir
BA Myndlist 2017
www.barabjarnadottir.com

Hugmyndin að Þú átt súkkulaðið en þú átt samt ekki súkkulaðið kom til þegar ég sá blaðamannafund NASA á netinu. Tilefni fundarins: möguleg lífsskilyrði er að finna í sólkerfinu Trappist-1. Þar með var Mars ekki lengur eina plánetan fyrir utan jörðina sem gæti mögulega hýst líf.

Tveimur vikum áður hafði ég kramið Mars súkkulaðistykki ofan á róskvars á vinnustofu minni. Verkið ber saman plánetuna og súkkulaðið. Samanburðurinn á sér stað í líkamlegri návist Mars súkkulaðisins og líkamlegri fjarveru plánetunnar. Tilvist beggja er viðurkennd, og ef til vill líður okkur eins og við þekkjum bæði plánetuna og súkkulaðið vel: Mars stykki er til í næstum hverri sjoppu og svo erum við alltaf að læra nýja hluti um plánetuna Mars. Það er ákveðið tóm (e. void) milli hlutarins eins og hann er og þess hvernig við þekkjum hlutinn. En þrátt fyrir að við hendum marsi í ruslið og sjáum það aldrei aftur er það ennþá til og tekur pláss annarsstaðar. Já, hvar er eiginlega allt Marsið?

Plánetan og súkkulaðið eiga samtal í tvívídd, lokað inni í skjá þar sem mannfólki er ekki boðið að slást með í för. Hins vegar geta sýningargestir hlustað á sögu Mars-róskvarsins og hlerað samtal mitt við aðila sem þekkir einkar vel til plánetunnar Mars. Spáð er í hvaða hlut mannfólk átti í uppgötvun Mars og hvaða hlutverk annað efni spilaði. Markaðsherferðir Mars súkkulaðisins eru ræddar og hvernig geimurinn er kynntur almenningi í poppmenningu. Árið 2000 stóð í auglýsingu frá Mars súkkulaði: „Hver veit, kannski eftir 100 ár munum við borða jarðstangir á Mars.“