Bakland LHÍ tók yfir starfsemi Félags um Listaháskóla árið 2016.
Markmið Baklandsins er að efla og styrkja Listaháskóla Íslands (LHÍ), tryggja tengsl skólans við listamenn, menningarstofnanir og atvinnulíf og stuðla að faglegri umfjöllun um listir og samfélag. Bakland kýs þrjá af fimm stjórnarmönnum Listaháskóla Íslands og hefur jafnframt það hlutverk að móta sér stefnu og markmið til stuðnings við starfsemi LHÍ á hverjum tíma.
 
Baklandið gerir nú átak í aðilaöflun að félaginu. Það skiptir gríðarlegu máli að fá að félaginu góðan hóp af þeim fyrirækjum sem starfa í hinum skapandi greinum sem skilja að stofnun á borð við LHÍ þarfnast samtals við fagumhverfið og sem vilja styðja skólann til góðra verka.
 
Listaháskólinn er eina háskólastofnun landsins sem helgar sig listum og hönnun. Fagleg staða skólans er sterk og rekstur til fyrirmyndar þrátt fyrir að rekstrarumhverfið sé erfitt. Húsnæðismál skólans eru því miður enn í ólestri.
Við sjáum einnig fyrir okkur að Baklandið geti með tímanum orðið sjálfstæður vettvangur þverfaglegrar samvinnu og hugmynda – rödd sem greiði götu skapandi greina hér á landi.
Þeir sem gerast formlega aðilar að Baklandinu veturinn 2018/2019 verða auðkenndir sem stofnaðilar Baklands Listaháskóla Íslands. Árgjaldi verður stillt í hóf og það ekki hækkað fyrstu þrjú árin:
  • Einyrkjar – 3.000 kr.
  • Stofnanir og fyrirtæki með 10 starfsmenn (heildarfjöldi) eða færri og hagsmunafélög/-samtök með færri en 50 félagsmenn – 20.000 kr.
  • Stofnanir og fyrirtæki með fleiri en 10 starfsmenn (heildarfjöldi) og hagsmunafélög/-samtök með fleiri en 50 félagsmenn – 40.000 kr.
Áhugasamir eru beðnir um að senda póst á baklandsstjorn [at] lhi.is þar sem stærð fyrirtækisins, sbr. hér að ofan og tengiliður eru tilgreindir.
 
Listaháskólinn efnir til fjölda spennandi viðburða árið um kring sem eru opnir almenningi og á vorin er glæsileg útskriftarhátíð. Á útskriftarhátíðinni sýna BA- og MA-nemar útskriftarverkefni sín á sviði myndlistar og hönnunar. Þá eru haldnir um 30 tónleikar og útskriftarsýningar leikara, dansara og sviðshöfunda. Hér njóta stofnaðilar Baklandsins sérstaks sambands við LHÍ og getur það falið í sér boð á frumsýningar, foropnanir, leiðsagnir af ýmsu tagi, arkitektagöngur, boð á tónleika, fyrirlestra, umræðufundi og fögnuði af ýmsu tagi.
 
Þá er vert að geta tveggja árlegra viðburða þar sem völdum hópi gefst færi á að taka þátt í samtali um stefnumótun, framtíðarsýn og hlutverk LHÍ í íslensku samfélagi. Auk þess halda fjölmargir listamenn, hönnuðir og gestakennarar fyrirlestra um rannsóknarsvið sín á hverjum vetri. Hugmyndin er að vinna að viðburðum í kringum þessa viðburði sem væru sérstaklega ætlaðir Baklandinu. Þá verður stofnaðilum boðið á næstunni á sérstakan kynningarfund með rektor þar sem stefna skólans til næstu fimm ára verður kynnt.
 
Með öflugu Baklandi viljum við búa til fjölbreytt tengslanet skapandi greina og fá þannig til okkar fólk sem styður við verkefni LHÍ ásamt því að leggja til hugsanlega stjórnarmenn og axla þannig ábyrgð á þróun skólans til framtíðar.

 

STJÓRN

Hlynur Helgason, formaður

Gunnar Andreas Kristinsson, gjaldkeri

Þorlákur Einarsson, ritari  

Aðalheiður Magnúsdóttir
Erling Jóhannesson
Gunnar Karel Másson
Halldóra Vífilsdóttir
Steingrímur Dúi Másson
Steinunn Þórhallsdóttir
 

Fulltrúar Baklandsins í stjórn Listaháskólans:

Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs, varaformaður.
Ólafur Sveinn Gíslason, myndlistarmaður.
Karen María Jónsdóttir, forstöðumaður Höfuðborgarstofu. 

HAFA SAMBAND

baklandsstjorn [at] lhi.is

FLÝTILEIÐIR 

Stjórn Listaháskóla Íslands

Um Listaháskóla Íslands (Ársskýrslur)

Samþykktir fyrir Bakland Listaháskóla Íslands