Samþykktir fyrir Bakland Listaháskóla Íslands

 

1. kafli – Nafn og markmið.

1.1. gr.
Félagið heitir Bakland Listaháskóla Íslands, kallað Bakland. Heimili og varnarþing þess er í Reykjavík.

1.2. gr.
Markmið Baklandsins er að efla og styrkja Listaháskóla Íslands (LHÍ), tryggja tengsl skólans við listamenn, menningarstofnanir og atvinnulíf og stuðla að faglegri umfjöllun um listir og samfélag. Bakland kýs fulltrúa í stjórn Listaháskóla Íslands og hefur jafnframt það hlutverk að móta sér stefnu og markmið til stuðnings við starfsemi LHÍ á hverjum tíma.

1.3. gr.
Svo unnt sé að uppfylla ofangreind markmið Baklandsins skal það standa fyrir a.m.k. einum auglýstum viðburði á ári þar sem aðildarfélögum gefst færi á að ræða málefni LHÍ, t.a.m. málþing eða ráðstefnu. Slíkir viðburðir skulu haldnir í samstarfi við LHÍ.

1.4. gr.
Til viðbótar framangreindu skulu smærri fundir haldnir eftir þörfum.

1.5. gr.
Baklandið aflar styrkja og annarra tekna til handa LHÍ eftir því sem ákveðið verður, t.a.m. með félagsgjaldi. Þeim styrkjum og tekjum skal varið til verkefna sem valin eru í samráði við stjórn LHÍ eða í samráði við einstakar deildir LHÍ allt eftir ákvörðun stjórnar Baklandsins.

2. kafli – Aðild og aðildarfélög.

2.1. gr.
Félög, hagsmunafélög og stofnanir með fagleg tengsl við þær listgreinar sem kenndar eru við LHÍ geta átt aðild að Baklandinu. Hver aðili greiðir árgjald sem ákveðið er á aðalfundi Baklandsins og tilnefnir einn fulltrúa til setu í stjórn Baklandsins.

3. kafli – Stjórn félagsins.

3.1. gr.
Í Baklandinu sitja fulltrúar listgreina og annarra faghópa. Þeir fulltrúar sem gegna stjórnarsetu á hverjum tíma eru bundnir af samþykktum og yfirlýstum markmiðum Baklandsins.

3.2. gr.
Stjórn Baklandsins skal skipuð 7 einstaklingum kjörnum á aðalfundi til þriggja ára í senn. Skal hver listgrein LHÍ eiga einn fulltrúa (4), Hollnemafélag LHÍ einn fulltrúa (1) og aðrir aðilar Baklandsins kjósa tvo fulltrúa (2).

3.3. gr.
Hver listgrein, sbr. gr. 3.2., skipar 6 fulltrúa í Baklandið. Framangreindir 6 fulltrúar úr hverri listgrein kjósa sín í milli einn fulltrúa til að eiga sæti í stjórn Baklandsins. Hollnemafélag LHÍ á tvo fulltrúa í Baklandinu og á annar þeirra sæti í stjórn Baklandsins.

3.4. gr.
Stjórn Baklandsins skiptir með sér verkum.

3.5. gr.
Stjórnarseta í stjórn Baklandsins takmarkast við tvö tímabil eða sex ár.

 

4. kafli – Kosning í stjórn Listaháskóla Íslands

4.1. gr.
Við ákvörðun um fulltrúa í stjórn LHÍ skal haft í hávegum að téðir fulltrúar skuli vera starfandi og/eða viðurkenndir lista- og fræðimenn á fagsviðum LHÍ. Fulltrúar menningarstofnana og atvinnulífs eru jafnframt gjaldgengir til setu í stjórn LHÍ.

4.2. gr.
Stjórn Baklandsins auglýsir eftir framboðum til stjórnar LHÍ meðal aðildarfélaga Baklandsins minnst fjórum vikum fyrir aðalfund.

4.3. gr.
Stjórn Baklandsins kýs árlega einn aðalmann og einn varamann í stjórn LHÍ til þriggja ára í senn. Hver stjórnarmaður skal einungis sitja tvö kjörtímabil samfellt.

4.4. gr.
Stjórn Baklandsins kýs á stjórnarfundi fulltrúa til stjórnarsetu í LHÍ úr innsendum framboðum. Meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum. Séu atkvæði jöfn fer formaður Baklandsins með oddaatkvæði.

4.5. gr.
Við ákvörðun um fulltrúa til stjórnarsetu í LHÍ skal stjórn Baklandsins gæta að faglegu jafnvægi milli faggreina til samræmis við markmið og þarfir LHÍ hverju sinni.

4.6. gr.
Fastráðnir starfsmenn, nemendur LHÍ og þeir sem hafa fjárhagslegra hagsmuna að gæta, sbr. skipulagsskrá LHÍ og starfsreglur stjórnar LHÍ eiga þess ekki kost að sitja í stjórn LHÍ.

5. kafli – Hlutverk stjórnar

5.1. gr.
Stjórn Baklands Listaháskóla Íslands stýrir starfsemi félagsins og ráðstafar fjármunum þess í samræmi við markmið Baklandsins skv. 2. gr. samþykkta þessara.

5.2. gr.
Stjórn Baklandsins er jafnframt ábyrg fyrir reikningshaldi og reikningsskilum. Hún varðveitir eignir Baklandsins og skal ávaxta sjóði þess á sem hagkvæmastan og öruggastan hátt hverju sinni.

5.3. gr.
Stjórn Baklandsins ber að sjá um samskipti við aðildarfélög þess og upplýsa um allar meiriháttar ákvarðanir, samþykktir og/eða skuldbindingar sem gerðar eru í nafni félagsins.

5.4. gr.
Stjórn Baklandsins myndar starfshópa og/eða nefndir um einstök verkefni sem eru til úrlausnar eða athugunnar hverju sinni.

5.5. gr.
Stjórn Baklandsins ákveður félagsgjöld á stjórnarfundi.

5.6. gr.
Stjórn Baklandsins setur sér vinnureglur um framkvæmd laga þessara.

 

6. kafli – Reikningar félagsins

6.1. gr.
Gera skal ársreikning fyrir hvert almanaksár. Ársreikningur skal fullgerður og undirritaður af stjórn Baklandsins í seinasta lagi tveimur vikum fyrir auglýstan aðalfund. Birta skal ársreikning félagsins ár hvert á opinberri vefsíðu LHÍ.

 

7. kafli – Fundir

7.1. gr.
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum Baklandsins. Aðalfund félagsins skal halda eigi síðar en í lok apríl ár hvert. Telst fundurinn lögmætur ef til hans er boðað með minnst tveggja vikna fyrirvara. Boða skal til fundarins með skriflegum hætti á miðlum Baklandsins, LHÍ og faghópanna. Í fundarboði skal geta dagskrár. Á dagskrá aðalfundar skal vera:

  1. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
  2. Reikningar Baklandsins fyrir liðið starfsár.
  3. Skýrsla um starfsemi LHÍ.
  4. Kosning sjö stjórnarmanna sbr. gr. 3.2.
  5. Breytingar á samþykktum.
  6. Önnur mál.

7.2. gr.
Stjórn Baklandsins getur ennfremur boðað til félagsfunda ef þörf krefur og skal boða til þeirra með minnst einnar viku fyrirvara. Ennfremur skal boðað til félagsfundar óski 1/3 hluti félagsmanna eftir því skriflega við stjórn Baklandsins.

7.3. gr.
Meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum, sjá þó gr. 8.1 og gr. 9.1.

8. kafli – Samþykktir félagsins

8.1. gr.
Samþykktum Baklandsins verður aðeins breytt á aðalfundi. Tillögur um breytingar á samþykktunum skulu sendar með aðalfundarboði. Breytingar á samþykktum öðlast aðeins gildi ef 2/3 hluti fundarmanna samþykkja framkomnar breytingartillögur.

9. kafli – Slit og ráðstöfun eigna.

9.1. gr.
Atkvæði 4/5 hluta fundarmanna á aðalfundi þarf til þess að slíta Baklandinu. Tillaga um slit þess skal send með fundarboði. Sé samþykkt á aðalfundi að slíta Baklandinu skal sú ákvörðun án tafar tilkynnt stjórn LHÍ og Mennta- og menningarmálaráðuneyti. Við slit Baklandsins skulu eignir þess renna óskiptar til Listaháskóla Íslands og þeim ráðstafað af stjórn hans.