Í námi til bakkalárgráðu er áhersla lögð á kvikmyndagerð sem frásagnarform - að segja sögu í myndrænu formi kvikmyndalistar. Námið er ætlað nemendum sem lokið hafa stúdentsprófi og stefna á störf á fagvettvangi kvikmynda eða á frekara nám og rannsóknir á fagsviðinu. Námið veitir alhliða menntun í kvikmyndagerð með áherslugrein - leikstjórn, handritsgerð, framleiðslu, kvikmyndatöku, klippingu eða hljóðtækni. 
 
Námsumhverfið byggir á skapandi samvinnu nemenda og kennara sem miðar að því að byggja upp tæknilega færni og sterkan grunn fagmennsku, jafnframt því sem hver og einn nemandi er hvattur til að þróa eigin listræna sýn og sérhæfingu eftir því sem líður á námstímann. Námið miðar því að því að allir nemendur hljóti grunnþekkingu og skilning á öllum þáttum kvikmyndagerðar um leið og þeir einbeita sér að sinni áherslugrein og stuðla þannig að virðingu og fagmennsku í því samvinnulistformi sem kvikmyndagerð er. 
 
Námið er að stórum hluta verklegt þar sem nemendur vinna í teymum að því að þjálfa tiltekna þætti sem allir miða að því að auka skilning á miðlinum og tileinka sér aðferðir til eigin sköpunar og myndrænnar framsetningar. Þannig munu ýmis fræða- og tækninámskeið styðja og fléttast saman við verklegar æfingar og listræna vinnu. Nemendur kynnast helstu kenningum samtímans á fræðasviðinu og sækja námskeið í kvikmyndasögu þar sem þau kynnast helstu straumum og stefnum listformsins. Nemendur eiga þess einnig kost að sækja valnámskeið og vinna í samstarfi við nemendur í öðrum deildum skólans. 
 
Á námstímanum gefst nemendum kostur á að fara í skiptinám við erlenda kvikmyndaháskóla, starfsnám innanlands eða vinna að sérverkefnum með leiðbeinanda. Kennsla á námsleiðinni verður í höndum leiðandi fagfólks á sviði kvikmyndalistar og munu nemendur hafa mótandi áhrif á námið og námsumhverfið sem er þróað í ríku samstarfi við kvikmyndageirann á Íslandi og erlenda kvikmyndaháskóla.
 
Að loknu þriggja ára námi útskrifast nemendur með bakkalárgráðu í kvikmyndagerð með sérhæfingu í einni af sex ofangreindum greinum. Gráðan býr nemendur undir störf á fagvettvangi kvikmyndalistar eða áframhaldandi nám á meistarastigi.

MIKILVÆGAR UPPLÝSINGAR

Opnað fyrir umsóknir: 8. janúar 2024

Umsóknarfrestur: 12. apríl 2024

Umsóknum svarað: Maí/júní 2024

Umsóknargjald 5000 kr.

UMSÓKNIR

Rafræn umsókn
Sérleiðbeiningar deildar

HAFA SAMBAND

gudrunl [at] lhi.is (Guðrún Lárusdóttir), deildarfulltrúi

gudrunl [at] lhi.is

FLÝTILEIÐIR

Kvikmyndalist á Instagram
Skólareglur
Háskólalög
Skólagjöld LHÍ
Kennsluskrá LHÍ

 

Frá fagstjóra