Söngur í skólastarfi

 

Megináhersla þessa verkefnis er söngur barna og þáttur hans í samfélagi þeirra, hvort sem er innan eða utan skólakerfisins. Þá er þungamiðja verkefnisins fimm ný sönglög fyrir börn sem ég hef samið á undanförnum mánuðum.
 
Ég hef nýtt lögin í tónmenntakennslu síðastliðins veturs og við ýmis önnur tækifæri og vona að þau geti nýst í samfélagi barna, skólakerfinu eða barnakórastarfi.
 
Í gegnum nám mitt og störf hefur sú sannfæring mín aukist jafnt og þétt, að söngur sé mikilvægur og mannbætandi og öll börn eigi að fá tækifæri til að syngja.
 
 
Röddin er vissulega okkar helsta samskiptatæki og söngur er mikilvægur tjáningarmáti. 
 
Söngur hefur leikið stórt hlutverk í varðveislu menningararfsins sem öflugur tjáningar- og sagnamiðill og verið sameiningarafl meðal ólíkra samfélaga. Hann getur því til dæmis nýst afar vel þegar kemur að því að miðla menningararfinum og tungumálum eða í hópvinnu og tjáningu.
 
Hér sjást nemendur úr Kársnesskóla flytja lagið „Vinur“ undir stjórn Álfheiðar Björgvinsdóttur. 
 

MA in Arts Education- Auður Guðjohnsen from Iceland Academy of the Arts on Vimeo.

Auk sönglaganna samanstendur verkefni mitt af marghliða umfjöllun um fyrirbærið samsöng, eðli hans og sögu, áhrif og menntagildi. Einnig skoðaði ég stöðu söngs og kórsöngs á meðal starfandi tónmenntakennara. Samkvæmt samtali og vefkönnun sem ég lagði fyrir kennara virðist kórsöngur fara dvínandi þrátt fyrir almennt öflugt kórastarf í landinu.
 
Hér sjást nemendur úr Kársnesskóla flytja lagið „Vertu yfir og allt um kring“ undir stjórn Álfheiðar Björgvinsdóttur. 
 

MA in Arts Education- Auður Guðjohnsen from Iceland Academy of the Arts on Vimeo.

 
Niðurstöður mínar úr þessu verkefni eru fyrst og fremst þær, að standa eigi vörð um söng barna og það sé ekki sjálfgefið að söngur viðhaldist innan skólastofnana og samfélags barna. Niðurstöður könnunarinnar meðal starfandi tónmenntakennara renna einnig stoðum undir þær vangaveltur mínar, að tónmenntakennsla, söngur og kórstarf barna eigi enn undir högg að sækja.
 
Þær má þó ekki túlka sem dóm á það góða starf sem unnið hefur verið undanfarið. Í ljósi þessa tel ég ríka ástæðu til að foreldrar, skólastjórnendur, menntastofnanir, kennarar og aðrir sem bera ábyrgð á uppeldi og menntun barna, haldi merkjum söngsins betur á lofti og hvetji tónskáld enn frekar til þess að semja sönglög fyrir börn.
 
Framtíðarvon mín er sú, að vegur söngs og skilningur á þýðingu hans og menntagildi aukist innan skólakerfisins. og að hann fái fastan stað í dagskipulagi allra skóla. 
 
 
audurgudjohnsen [at] gmail.com
Leiðbeinandi: Kristín Valsdóttir
2017